Leitað að dýralæknum fyrir Austurland

lombMatvælastofnum hefur auglýst eftir eftirlitsdýralækni á Austurlandi og dýralækni til að þjónusta mið-Austurland. Dýralæknir á Vopnafirði þjónustar nú einnig hluta úr Þingeyjarsveit.

Aðrir dýralæknar stofnunarinnar skiptast nú á um að sinna embættisskyldum héraðsdýralæknisins en Eyrún Arnardóttir, sem gegnt hefur stöðunni, er farin í tímabundið leyfi.

„Markmið okkar er að tryggja sömu þjónustu og áður," segir Hjalti Andrason en umsóknarfrestur um 50% tímabundna stöðu til 1. nóvember 2015 er til 15. desember næstkomandi.

Þá hefur einnig verið auglýst aftur eftir dýralækni til að gera þjónustusamning við fyrir mið-Austurland. Sá samningur hefur verið laus síðan 1. nóvember en ekki tókst að tryggja stöðuna þrátt fyrir auglýsingar.

Með breytingum á lögum sem gengu í gildi 1. nóvember 2011 var umdæmum dýralækna fækkað úr 14 í sex. Um leið var eftirlits- og þjónustuhlutverk dýralækna aðskilið til að koma í veg fyrir að sami dýralæknir hafi eftirlit með þeim sem hann þjónusti.

Í staðinn voru gerðir þjónustusamningar til þriggja ára við sjálfstætt starfandi dýralækna til að tryggja aðgengi að dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins.

Ekki tókst heldur í haust að tryggja dýralæknaþjónustu að fullu í Þingeyjarsýslum en nýverið var samið við dýralækni frá Vopnafirði að sinna einnig Þistilfirði og Langanesi í 50% stöðu.

Þær upplýsingar fengust hjá MAST að unnið sé að gerð tímabundins samnings við dýralækni á Húsavík til áramóta til að aðgengi að dýralæknum verði jafngott og áður á meðan. Þjónustukerfi dýralækna væri annars heilt yfir í skoðun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar