Húseigendur í Borgarfirði fengu óvenjulega heimsókn á dögunum: Væri gaman að taka þátt

borgarfjordur eystriHúseigendur á Borgarfirði eystra fengu skemmtilega heimsókn á dögunum frá áhugasömu kvikmyndafyrirtæki sem vildi kanna möguleika á tökum á kvikmynd í húsum þeirra.

Það var Framfarafélagið sem setti svohljóðandi tilkynningu á facebooksíðu húseiganda á Borgarfirði fyrir skemmstu.

„Ágætu Húseigendur á Borgarfirði eystra. Við hjá Framfarafélaginu höfum fengið erindi um að liðsinna áhugasömu kvikmyndafyrirtæki varðandi mögulegar tökur á íslenskri kvikmynd í fullri lengd sem fyrirhugað er að taka á Borgarfirði eystra frá miðjum ágúst og fram á haust.

Til þess að svo megi verða er leitað að 5 - 6 húsakynnum til að skapa sögusvið aðalpersóna í myndinni. Á morgun mun koma aðili á Borgarfjörð og vera hér næstu 4 daga að kynna sér alla mögulega kosti í stöðunni varðandi tökustaði og þar með talið húsnæði þar sem sögupersónur eiga heimili og þá einnig staðsetningu á verslunum, sjoppu og þá fyrir útitökur.

Það er von okkar að þið bregðist jákvætt við ef leitað er til ykkar varðandi að fá að lýta inn í húsnæði ykkar til að kanna mögulega tökustaði. Ef svo þeim lýst vel á húsakynnin þá að sjálfsögðu verður haft samband við ykkur og leitað eftir því að fá húsnæðið leigt eða lánað til afnota í einhverja daga næsta haust.

Að lokum má geta þess að falast verður eftir einhverju húsnæði til leigu fyrir leikara og aðstandendur myndarinnar til að búa í ef af verður.“

Tók mörg þúsund myndir

„Það er búið að fara að skoða tuttugu og þrjú hús og nú er bara verið að spá og spekúlera. Húseigendur tóku bara vel í þetta og viðbrögðin voru mjög jákvæð. En að sjálfsögðu voru nokkrir sem vilja bara hafa sitt næði og sín hús út af fyrir sig.

Það var bara einn starfsmaður þeirra sem kom og tók nokkur þúsund myndir. Bæði í húsunum og utandyra. Það þarf að skoða hvort þetta allt hentar sögunni og sögusviðinu. En það er ekkert ákveðið í þessum efnum. Nú er bara verið að skoða myndirnar og möguleikana, og hvaða tækifæri eru til staðar til að taka upp þessa kvikmynd hérna næsta sumar,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson, formaður Framarafélagsins.

Íslensk kvikmynd

Má gefa upp hvaða mynd þetta er? „Ég veit í sjálfu sér ekki mikið um þessa kvikmynd, nema að hún er íslensk og heitir Hjartasteinn og fjallar um unglinga í litlu sjávarþorpi og þeirra samband. Ég veit ekki hvort þeir eru að skoða einhverja aðra staði. En ég veit þó að þetta er allt á hugmyndastigi. Það er verið að vinna að fjármögnun og undirbúningi myndarinnar.

Ef að úr verður, þarf fólk að yfirgefa húsin sín á meðan tökum stendur? „Nei. Áætlaður tökutími eru átta til tíu vikur og þá eru einhverjir tökudagar sem eru háðir einhverjum tökustöðum. Þetta er bara afnot að húsnæðinu í ákveðin tíma. Það eru mörg dæmi fyrir þessu. Það er alltaf verið að taka myndir í allskonar húsakynnum sem eru ekki í kvikmyndaveri. Fólk leigir bara húsin sín og geta fengið smá pening fyrir.
En það er spennandi að sjá hvað verður. Ef þetta gengur upp er ekkert annað en gaman að taka þátt í svona verkefni sem getur þýtt einhverja innspýtingu í samfélagið í stuttan tíma, bæði fyrir þjónustuaðila og þá húseigendur. Fólk þarf til dæmis að búa einhverstaðar. Það er svo margt jákvætt sem gæti fylgt þessu,“ segir Argrímur, eða Viddi eins og hann er alltaf kallaður.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.