Skipulagsbreytingar í framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaáls
Breytingar hafa verið gerðar í framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaáls. Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls gerði starfsfólki grein fyrir breytingunum í dag og taka þær formlega gildi 1. janúar 2015.Luke Tremblay verður framkvæmdastjóri framleiðslu. Luke hefur starfað hjá Alcoa í 30 ár sem verkfræðingur, kerskálastjóri, steypuskálastjóri, ABS- og mannauðsstjóri og síðast sem framkvæmdastjóri álvers Alcoa í Baie-Comeau í Kanada.
Smári Kristinsson, sem áður gegndi tímabundið stöðu framkvæmdastjóra framleiðslu, verður framkvæmdastjóri álframleiðslu og kerfóðrunar.
Kristinn Harðarson, áður framkvæmdastjóri kerskála, verður framkvæmdastjóri stöðugra umbóta og tæknimála. Framleiðsluþróun og fjárfestingar munu heyra undir Kristin en jafnframt er hlutverkinu ætlað að vinna í uppbyggingu þekkingar og tæknilegrar þróunar fyrirtækisins.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, áður framkvæmdastjóri umhverfis-, heilsu- og öryggismála, verður framkvæmdastjóri málmsteypu.
Páll Freysteinsson, áður framkvæmdastjóri áreiðanleika, verður framkvæmdastjóri umhverfis-, heilsu- og öryggismála.
Árni Páll Einarsson tekur við starfi framkvæmdastjóra áreiðanleika.
Júlíus Brynjarsson verður framkvæmdastjóri skautsmiðju.
Ný framkvæmdastjórn Fjarðaáls
Framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaáls skipa nú auk ofantaldra: Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Ruth Elfarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og Guðný Björg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála.