Fjarðabyggð og Hornafjörður togast á um lögregluna

logregla syslumadursey heradsdomuraustBæjaryfirvöld í Fjarðabyggð og Hornafirði greinir á um hvort Hornafjörður eigi að tilheyra austur- eða suðurumdæmi nýrra lögregluumdæma. Hornfirðingar vilja að nýr dómsmálaráðherra afturkalli ákvörðun um að sveitarfélagið verði skilgreint með austursvæði.

Síðasta embættisverk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem setts dómsmálaráðherra var að skrifa undir reglugerð um skiptinu landsins í lögregluumdæmi en samkvæmt henni á Hornafjörður að tilheyra austurumdæmi.

Slíkt hefur fyrirkomulagið verið frá árinu 2007 og var í upphaflegum tillögum innanríkisráðherra, sem kynntar voru í sumar, um skiptingu nýrra lögreglu- og sýslumannsumdæma.

Því var hins vegar breytt í haust og Hornfirðingar færðir undir suðurumdæmi, meðal annars eftir ályktanir frá bæjarráði Hornafjarðar og samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi. Þess ber að geta að Hornafjörður mun einnig heyra undir umdæmi sýslumannsins á Suðurlandi og byrjað var að vinna að nýju lögregludæmi.

Ekki forsvaranlegt að slíta embættið í sundur

Í Fjarðabyggð hafa menn hins vegar lýst yfir áhyggjum sínum af breytingunum og fjárhagsstöðu lögregluumdæmisins og þær voru ítrekaðar í bókun bæjarráðs í gær.

Þar segir að reynslan af samstarfinu hafi verið góð og ekki sé forsvaranlegt að slíta í sundur nýtt embætti lögreglunnar á Austurlandi þegar ekki liggi fyrir fjárhagsleg greining á styrk þess. Styrkja verði embættið frekar til að tryggja að það geti sinnt hlutverki sínu í framtíðinni ef slíta á það í sundur.

Þá er einnig áréttað að Hornafjörður eigi enn samstarf með Austurlandi á ýmsum sviðum, meðal annars í vinnumarkaðsráði, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, austurumdæmi Matvælastofnunar og fleirum.

180° viðsnúningur

Hornfirðingar hafa á móti gagnrýnt ákvörðun Sigmundar Davíðs harðlega og sagt ákvörðunina hafa verið tekna án samráðs við heimamenn og í raun þvert á það sem fjöldi fólks hafi lagt vinnu í að undirbúa.

Þannig skoraði bæjarstjórn Hornafjarðar samhljóða á nýjan dómsmálaráðherra að breyta reglugerðinni þannig að Hornafjörður heyri undir suðurumdæmi og haldið verði áfram með þá vinnu sem verið hefur í gangi undanfarna mánuði.

Í fundargerð er haft eftir Sæmundi Helgasyni, bæjarfulltrúa E-lista á Hornafirði, að hann hafi „áreiðanlegar heimildir" um að settur dómsmálaráðherra hafi „hringt í valda aðila innan lögreglu í síðastliðinni viku" og spurði hvers vegna ekki hefði verið hringt í neinn bæjarfulltrúa eða bæjarstjóra.

Sæmundur sagði ákvörðunina „180° viðsnúning" á öllu því sem hefði farið fram, gert án nokkurs samráðs við sveitarstjórn. Gjörningurinn væri ekki opin stjórnsýsla af hálfu ríkisins.

Ásgerður Gylfadóttir, B-lista, tók undir orð Sæmundar og sagði mjög slæmt þegar traust væri brotið í máum sem þessu,

Bæjarstjórinn Björn Ingi Jónsson, sem harðlega hefur gagnrýnt ákvörðunina, samsinnti Ásgerði og Sæmundi og þingmenn suðurkjördæmis vinna með Hornfirðingum að því að tryggja hagsmuni þeirra sem séu fjórir lögreglumenn og yfirlögregluþjónn á Hornafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar