Gleymast hreyfihamlaðir við framkvæmdir á ferðamannastöðum?

steafn mar gunnlaugssonStefán Már Gunnlaugsson, prestur á Vopnafirði, varar við því að hreyfihamlaðir verði útundan við uppbyggingu á vinsælum ferðamannastöðum. Þetta geri það að verkum að þeir eigi erfiðra með að njóta íslenskrar náttúru.

„Við framkvæmdir á íslenskum ferðamannastöðum virðist hafa gleymst, að hreyfihamlaðir hafa líka ánægju af að koma þangað og njóta.

Benda má á nýjar framkvæmdir og byggingar á ferðamannastöðum án aðgengis fyrir hreyfihamlaða, þrátt fyrir að reglugerðir kveði skýrt á um það, en ekkert mark á því tekið. Oft er viðkvæðið fjárskortur, en oftast virðist það hreinlega hafa gleymst," skrifar Stefán Már í nýjum pistli á trú.is.

Hann nefnir Dettifoss sem dæmi. Bílastæðin séu góð en göngustígurinn sem liggi frá þeim að fossinum verði ófær nokkrum metrum frá útsýnispallinum.

„Þar má samt finna og heyra drunurnar frá fossinum, en hreyfihamlaðir mega ekki sjá hann," skrifar Stefán og bendir á sömu sögu sé að segja af mörgum öðrum ferðamannastöðum.

Vissulega séu aðstæður víða þannig í náttúru Íslands að engar framkvæmdir dugi til að auðvelda aðgengi hreyfihamlaðra. Á öðrum stöðum sé það hins vegar lítið mál.

„Þar sem það er mögulegt, og er mjög víða, og sérstaklega þar sem lagt er í mikinn kostnað af almannafé til framkvæmda, þá verður að gera ráð fyrir að hreyfihamlaðir eigi þar greiðan aðgang, en gleymist ekki."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar