Sést varla á milli húsa og þakplötur farnar að fjúka

egs 14122014 0003 webAftakaveður er á Austfjörðum í dag og útlit fyrir að vindur muni enn aukast út við ströndina. Björgunarsveitir hafa verið á ferðinni í morgun en almennt virðist fólk halda sig heima.

Björgunarsveitin Eining á Breiðdalsvík var í hádeginu kölluð að bænum Krossi í Berufirði þar sem þakplötur voru farnar að fjúka af hlöðu.

Þá var björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði einnig kölluð út til að festa plötur sem voru farnar að losna.

Á Egilsstöðum aðstoðaði björgunarsveitin Hérað við vaktaskipti á heilbrigðisstofnun og lögreglu í útköllum. Ekki er fært fyrir fólksbíla innanbæjar en þó nokkrir ökumenn hafa þurft hjálp eftir að hafa fest sig á götunum.

Á Héraði hefur vindinn örlítið lægt en hann aukist að sama skapi á fjörðunum. Á Reyðarfirði sér ekki lengur á milli húsa.

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði aðstoðaði við matardreifingu til ellilífeyrisþega. Þar er blindbylur, sér vart milli húsa og ófært innanbæjar fyrir fólksbíla.

Í Hamarsfirði hafa mælst hviður upp á 70 m/s.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar