„Börnin eru velkomin í skólann ef þið treystið þeim út í veðrið“
Skólahaldi hefur verið aflýst nú þegar í minnst sjö grunnskólum á Austurlandi og þremur leikskólum. Foreldrum er í sjálfsvald sett hvort þeir senda börn í leikskólana í þéttbýlinu á Egilsstöðum og í Fellum en þar hefur starfsfólk átt erfitt með að komast til vinnu.„Úti er bálhvasst. Nokkrir starfsmenn eru mættir í hús. Börnin eru velkomin ef þið treystið þeim út í veðrið til að koma í leikskólann."
Þannig hljómar tilkynning á vef leikskólans Hádegishöfða í Fellabæ. Í frétt á vef leikskólans Tjarnarskógar á Egilsstöðum segir að margt starfsfólk hafi ekki komist til vinnu vegna ófærðar en leitast verði við að hafa skólann opinn fyrir þá sem nauðsynlega þurfi.
Í báðum tilfellum eru foreldrar hvattir til að fylgjast með veðri í dag þar sem það geti versnað aftur seinni partinn.
Öllu skólahaldi í Brúarási var aflýst strax í gærkvöldi og grunnskólarnir á Hallormsstað og í Fellabæ eru einnig lokaðir.
Á Seyðisfirði eru bæði grunnskólinn og leikskólinn lokaðir en þar voru starfsmenn í vandræðum með að komast til vinnu.
Á Borgarfirði og Eskifirði var skólahaldi í bæði leik- og grunnskólum aflýst vegna veðurs í morgun.
Á Fljótsdalshéraði hafa íbúar gagnrýnt upplýsingamiðlun bæjarsins en það á við um flest sveitarfélögin að leita þarf upplýsinga um skólahald á heimasíðum eða Facebook-síðum hvers skóla fyrir sig. Þá hafa íbúarnir einnig spurt út í upplýsingar um færð og mokstur.
Athygli vekur að fulltrúar í bæjarráði, sem hafa setið á reglubundnum fundi frá klukkan níu, hafa á samfélagsmiðlum verið að svara fyrirspurnum einstakra íbúa á samfélagsmiðlum. Þar hefur meðal annars komið fram að foreldrum sé í sjálfsvald sett hvort þeir sendi börnin til skóla.
Mynd: Af Facebook-síðu Fellaskóla. Svona var umhorfs þar klukkan sjö í morgun.