Breiðdalur án rafmagns í sólarhring: Ríkir hálfgert neyðarástand
Rafmagnslaust hefur verið í Breiðdal síðan klukkan tvö í gær og ekki er útlit fyrir að rafmagn komist á fyrr en um hádegi. Kalt er orðið í íbúðarhúsum þar sem treyst er alfarið á rafmagnskyndingu.„Við eru óhress því við erum eiginlega bjargarlaus," segir Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps.
Aðalspennir við Ormsstaði í Breiðdal gaf sig í gær sem þýðir að rafmagnslaust er suður á Berufjarðarströnd.
Spennirinn vegur 15 tonn og kemur með bíl úr Reykjavík. Von er á honum í Breiðdalinn upp úr klukkan 10 og eftir það tekur 2-3 tíma að tengja hann. Starfsmenn RARIK á Austurlandi hafa í morgun unnið að því að fjarlægja þann gamla.
Það alvarlegasta við rafmagnsleysið er að íbúar á svæðinu treysta alfarið á rafmagnskyndingu. Víða er því farið að kólna í húsum. „Hitastigið í húsinu hjá mér er komið niður í 10,9 gráður og það verður ótrúlega fljótt kalt í húsunum.
Það ríkir hálfgert neyðarástand hér. Það var mikill vindur hér fram á nótt og nú er fimm stiga frost.
Við höfum miklar áhyggjur af eldra fólki og höfum skipulagt aðstoð við það. Við vitum að einhverjir fóru yfir á Stöðvarfjörð og gistu þar því við bentum sérstaklega fólki með lítil börn á gistiheimilið þar.
Aðrir hafa dúðað sig niður í rúmin. Ástandið er eflaust ekki gott í sveitinni, að minnsta kosti ekki á kúabúunum."
Breiðdælingar eru heldur ekki hressir við viðbrögð RARIK því vararafstöð sem var í þorpinu er ekki lengur til staðar. „Okkur finnst einkennilegt að ekkert varaafl sé til á Austurlandi.
Maður hélt að svona gæti ekki gerst lengur, að það væru til aðrar neyðaráætlanir en að senda varahluti úr Reykjavík."
Hákon gagnrýnir ennfremur skort á upplýsingum frá RARIK. Breiðdælingar hafi hringt eftir þeim en fátt verið um svör. Ekki eru heldur neinar upplýsingar á vef veitnanna né hefur fjölmiðlum verið sendar tilkynningar um ástandið.
Þá var óskað eftir því að almannavarnir sendu SMS á síma á svæðinu, líkt og gert er í kringum eldgosið í Holuhrauni, en ekki var orðið við því. Flestir heimasímar á svæðinu virka ekki, aðeins gemsar og gamaldags heimasímar.