Orðbragð: Biðja íbúa Neskaupstaðar afsökunar
Lokaþáttur sjónvarpsþáttarins Orðbragðs var á dagskrá á sunnudagskvöld. En þau mistök áttu sér stað að stafsetningarvilla kom fyrir í þættinum í orðinu Neskaupstaður.Þetta kom fyrir í þáttarbrotinu þegar Bragi Valdimar Skúlason bíður áhorfendur velkomna í málverið, þar sem hann tók fyrir íslensk örnefni.
„Bragi var með Íslandskortið og raðaði kaupstöðum landsins í stafrófsröð og það var auka s í Neskaupsstaður sem er ekki gott. En við viljum byrja þetta viðtal á afsökunarbeiðni til íbúa Neskaupstaðar,“ sagði Brynja Þorgeirsdóttir, þáttastjórnandi í viðtali í Virkum morgnum á Rás 2 í gærmorgun.
Kaupstöðunum var síðan dreift um landið í nýrri röð þannig að margir þeirra færðust til.
„Við vitum auðvitað alveg að það er ekki tvö s í kaupstaður. Ég tek enga ábyrgð á þessum mistökum og það verður einhver dregin til ábyrgðar, ætli það verði ekki útvarpsstjóri“ segir Bragi (frekar fyndinn) í sama viðtali. „Þetta var bara innsláttarvilla,“ bætir Brynja við.
Þáttastjórnendurnir fengu mikil viðbrögð við innsláttarvillunni. „Ég skil vel að fólki er brugðið. En það hinsvegar gladdi okkur hversu mikil viðbrögð við fengum, þá sérstaklega að austan. Það sýnir að fólki er ekki sama og það er að horfa,“ sagði Brynja á Rás 2 í gærmorgun.
Hægt er að sjá lokaþáttinn af Orðbragði HÉR.
Mynd: Orðbragð