Austfirðingar fastir í borginni: Það fær enginn neinar jólagjafir frá mér nema ég komist heim
Flugsamgöngur á milli Egilsstaða og Reykjavíkur hafa farið úr skorðum vegna óveðurs til skiptis í landshlutunum síðustu daga. Þó nokkrir Austfirðingar eru enn tepptir syðra.„Maður stjórnar ekki veðrinu en ég hef fulla trú á að við komumst heim á morgun," segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls, en hún er meðal hinna veðurtepptu.
Dagmar var að koma erlendis frá og átti upphaflega bókað austur á sunnudag. Fréttir gáfu þó strax vísbendingu um þá raun að hvorki yrði flogið á sunnudag né mánudag.
Tvær vélar komust á milli í morgun áður en leiðin lokaðist aftur vegna óveðurs syðra. „Ég var svolítið fúl að komast ekki með í morgun. Ég komst að því rétt áður en vélin fór að það væri eitt sæti laust en umferðin var mikil og ég náði ekki á völlinn í tæka tíð."
Nokkrir Austfirðingar komust suður og sitja því fastir þar í staðinn. Þeirra á meðal voru Sigrún Blöndal og Björg Björnsdóttir sem fara fyrir Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.
„Ég var að grínast við þær að við gætum haldið jólin saman á hótelherbergi í borginni," segir Dagmar.
Hún á samt ekki von á að til þess komi. „Ég er búin að vera í meira en viku frá fjölskyldunni og er tilbúin að komast austur. Ég er líka með allar jólagjafir fjölskyldunnar og því fær enginn neitt frá mér nema ég komist heim."