Óheillaskref þegar svæðisstöðvar RÚV voru færðar undir fréttastofuna

hrafnkell larusson mars14Austurland varð fyrir mikilli þjónustuskerðingu þegar svæðisútvarp Austurlands (RAUST) var lagt niður. Fyrrum forstöðumaður segir það hafa verið óheillaskref fyrir svæðisstöðvarnar þegar þær voru færðar undir fréttastofu RÚV.

Þetta kemur fram í rannsókn Hrafnkels Lárusson á svæðisbundinni fjölmiðlun á Austurlandi á árunum 1985-2010 en brot úr henni birtist í nýjasta tölublaði Múlaþings.

Fyrstu fréttamaður RÚV á Austurlandi tók til starfa haustið 1985 og tveimur árum síðar hófust reglulega útsendingar svæðisútvarps. Fyrsta árið var sent út í hálftíma á viku en eftir árið var útsendingartíminn tvöfaldaður. Markviss vinnsla sjónvarpsfrétta hefst árið 1997.

Starfsmenn svæðisútvarpsins voru flestir sex talsins á virkjunartímanum. Austfirsku fréttamennirnir voru þeir innan RÚV sem fyrstir unnu fréttir jöfnum höndum í útvarp og sjónvarp.

Einstaklingar af Austurlandi voru með eigin þætti, dagskrárgerðarfólk að sunnan kom austur og sendi út en nokkuð var unnið af þáttum og efni fyrir útvarpsþætti fyrir austan.

Snérist um að þjóna Efstaleitinu

RÚV var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007 og ári síðar voru sem svæðisstöðvarnar, sem áður voru sér undir framkvæmdastjóra, færðar undir fréttastofuna og fréttastjóra.

„Þetta var mikið óheillaskref fyrir svæðisstöðvarnar," er haft eftir Ásgrími Inga Arngrímssyni, síðasta forstöðumanni RAUST.

„Allt í einu voru þær, sem stofnaðar voru til að sinna fjölbreyttu hlutverki í dagskrárgerð og sérstaklega á sínu landsvæði, farnar að þjóna eingöngu hlutverki fréttamiðils á landsvísu. Þær höfðu orðið engan sjálfstæðan tilgang og voru eingöngu metnar út frá mælikvörðum fréttastofu RÚV.

Það var því næstum innbyggt í skipuritið að útsendingum svæðisstöðvanna yrði hætt og starfseminni breytt allri í þá átt að hún gæti þjónað Efstaleiti sem best."

Hljóp eins og hamstur

Ásgrímur Ingi tók við starfinu haustið 2008 en þá var skorið verulega niður á svæðisstöðvunum. Sérstökum útsendingum þeirra var hætt í byrjun árs 2010.

Hann var um tíma eini fréttamaðurinn og forstöðumaðurinn. „Eftir að ég tók við var ég í raun einn mestmegnis í nokkra mánuði og gerði lítið annað en að hlaupa eins og hamstur á hjóli við að framleiða fréttir og dagskrárefni mestmegnis fyrir Svæðisútvarp, fréttir útvarps og sjónvarps."

Sinntu aðhaldshlutverkinu

Hrafnkell kemst að þeirri niðurstöðu að RAUST hafi rækt hlutverk sitt um aðhald við valdhafa og uppfræðslu fyrir íbúa svæðisins. Starfsmenn RAUST virðast sáttir við sína frammistöðu þótt aðhaldið hafi stundum reynst erfitt vegna tengsla- og kunningsskapar.

Íbúar hafi síðan ýmist hvatt þá til dáða eða kvartað. Auglýsendur hafi ekki reynt að hafa áhrif, frekar hafi þeir sem ekki auglýstu reynt að skapa þrýsting.

„Ég get stoltur sagt að ég hafi aldrei nokkurn tímann þurft að hætta við að segja frétt af því að hún var talin koma við kauninn á einhverjum," segir Ásgrímur Ingi.

Heimsókn frá talsmanni Alcoa

Dæmi eru hins vegar um að forsvarsmenn fyrirtækja og sveitarfélaga á svæðinu hafi reynt að hafa áhrif á fréttaflutninginn.

„Ég er jafnframt stoltur af því að upplýsingafulltrúi stórfyrirtækisins Alcoa gerði sér sérstaka ferð til mín meðan ég var forstöðumaður til þess að ræða við mig um hversu neikvæðar fréttir ég hefði gert um fyrirtækið í gegnum tíðina.

Upplýsingafulltrúinn gat þó ekki bent á neina rangfærslu í fréttunum en fannst ég ekki nægilega jákvæður í garð fyrirtækisins. Þetta finnst mér ennþá fyndið en mjög umhugsunarvert einnig."

Mikil þjónustuskerðing

Hrafnkell bendir í niðurstöðum sínum á að RAUST hafi haft sömu fréttaáherslur og fréttastofan í Reykjavík. Helsti munurinn þó verið sá að ýmislegt sem þótti fréttnæmt innan svæðis og fékk umfjöllun í Svæðisútvarpinu þótti ekki hafa skírskotun á landsvísu.

Niðurstaða hans er því að Austurland hafi orðið fyrir „mikilli þjónustuskerðingu" af hálfu RÚV þegar svæðisútsendingunum hafi verið hætt auk þess sem fjölmiðlun í fjórðungnum hafi dregist mikið saman. „Þau áhrif hafa skýrast komið fram í samdrætti í upplýsingadreifingu innan svæðisins og minni opinberri umræðu um samfélagsmál."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar