MAST: Ekki boðlegt ástand á þjónustu dýralækna á Austurlandi

lombMatvælastofnun (MAST) viðurkennir að ástand þjónustu dýralækna á mið-Austurlandi sé ekki ásættanleg á meðan ekki er hægt að gera þjónustusamning við dýralækni um að sinna svæðinu. Ítrekað hefur verið auglýst eftir umsækjendum en enginn gefið sig fram. Stofnunin segir fjármagn skorta í verkefnið.

Matvælastofnun hefur umsjón með velferð dýra en hjá stofnuninni starfa um 30 dýralæknismenntaðir starfsmenn sem flestir sinna eftirliti.

Dýralæknar sem sinna lækningum starfa á frjálsum markaði en Matvælastofnun gerir þjónustusamninga við dýralækna til að tryggja almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu á landsvæðum þar sem dýr eru fá eða verkefni dýralækna takmörkuð.

Landinu er skipt upp í níu þjónustusvæði og nær svæði sex frá Bakkafirði í norðri suður til Reyðarfjarðar. Þjónustusamningur er við dýralæknir er á Vopnafirði um að sinna svæðinu þaðan og norður að Húsavík.

Þrisvar auglýst án árangurs

Matvælastofnun hefur þrisvar auglýst 50% þjónustusamning á svæðinu sunnan Vopnafjarðar en án árangurs. Síðasti umsóknarfrestur rann út um helgina en engin umsókn barst. Samningar hafa verið lausir frá 1. nóvember. Tvö svæði af níu standa út af án samnings.

Í svari MAST við fyrirspurnum Austurfréttar vegna málsins er viðurkennt að stofnunin meti ástandið „óásættanlegt" á meðan ekki sé gengið frá öllum þjónustusamningum.

„Matvælastofnun telur ekki boðlegt að dýraeigendur hafi ekki greiðan aðgang að dýralæknaþjónustu og vinnur hörðum höndum að því að finna bót á málinu."

Engin þjónusta á daginn

Á dagvinnutíma geta dýraeigendur snúið sér til sjálfstætt starfandi dýralækna. Tveir slíkir hafa verið á Egilsstöðum en þeir fóru í frí í byrjun vikunnar og snúa ekki aftur fyrr en eftir áramót.

Það þýðir að engin dýralæknaþjónusta er á svæðinu á dagvinnutíma heldur verða dýraeigendur að nýta sér vaktþjónustu MAST utan þess tíma. Dýralæknirinn á Vopnafirði verður á vaktinni fram yfir áramót.

MAST sendi út tilkynningu um málið síðdegis í kjölfar fyrirspurna Austurfréttar og dýraeigenda. Þeim var meðal annars bent á að hringja í 1818 sem átti að veita upplýsingar af vef MAST. Þar var í gær hins vegar gefið upp símanúmer sem ekki er lengur tengt. Úr því á nú að vera búið að bæta.

Vantar fjármagn í 100% starf

Talsmenn MAST segja dýralæknaskortinn ekki tilkominn af forgangsröðun stofnunarinnar. Hennar dýralæknar starfi við eftirlit og séu hlaðnir verkefnum samkvæmt lögum. Löggjafarvaldið ákveði úthlutun fjármagns til stuðnings við dýralæknaþjónustu á landsbyggðinni og þar skorti á.

„Skortur á umsóknum gefur til kynna að fjárstuðningur sé ekki nægilegur. Framkvæmd úthlutunar þjónustusamninga er bundið í reglugerð og er ekki hægt að auka stuðning eða gera breytingar á þjónustusvæðum nema með breytingum á reglugerð," segir í svarinu.

Stofnunin telur að breyta þurfi reglum um dýralækna á svæðunum tveimur, sem samanlagt ná úr Fnjóskadal til Reyðarfjarðar, til að hægt verði að ganga frá þjónustusamningunum og hefur óskað eftir að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið geri það. „Sú vinna er í forgangi og hefur stofnunin óskað eftir flýtiafgreiðslu á erindi sínu."

Harmar alvarlega stöðu dýraeigenda á Austurlandi

Stofnunin hefur þar óskað eftir að auglýst verið 100% starf en ekki 50%. „Yfirdýralæknir og aðrir fulltrúar stofnunarinnar hafa fundað með landbúnaðarráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins og gert grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem fyrirsjáanleg var og er nú komin upp eftir að starfandi dýralæknar á þessu svæði fóru í tímabundið leyfi.

Matvælastofnun harmar þá stöðu sem dýraeigendur á Austurlandi standa frammi fyrir meðan enginn dýralæknir er starfandi á svæðinu eða sækir um þann samning sem í boði er og á meðan stjórnvöld hafa ekki gefið svar um þá framtíðarlausn sem stofnunin hefur lagt til."

Við bætist að héraðsdýralæknir Austurumdæmis, Eyrún Arnardóttir, fór í fæðingarorlof nýverið en samið hefur verið við Hákon Hansson á Breiðdalsvík og jafnframt héraðsdýralæknana Ólaf Jónsson í Norðausturumdæmi og Gunnar Þorkelsson í Suðurumdæmi um að sinna störfum héraðsdýralæknis.

Ásdís Helga Bjarnadóttir dýraeftirlitsmaður í Austurumdæmi tekur við öllum erindum sem berast til umdæmisskrifstofunnar og deilir þeim út til réttra aðila.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar