Samkeppni um nafn á nýtt hjúkrunarheimili á Egilsstöðum: Óskum eftir að nafnið eigi sér einhverja sögu

hjukrunarheimilid egsByggingarnefnd hjúkrunarheimilisins á Egilsstöðum auglýsir eftir nafni á nýja hjúkrunarheimilið við Blómvang 1.

„Við vorum sammála um að það væri viðeigandi að þetta væri nafn sem kæmi héðan, frá íbúum svæðisins, en ekki frá örfáum körlum og konum í einhverju lokuðu rými. En við förum fram á rökstuðning og óskum eftir að nafnið eigi sér einhverja sögu eða tengingar annaðhvort við nútíð eða framtíð. Það er hugsunin með þessu,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs

Ekki hefur verið rætt um hvort nafnið sem valið verður fái sérstaka viðurkenningu. „Það hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort það verði eitthvað meira en gleðin sem fylgir því að eiga heiðurinn að nafninu sem að lokum verður valið. En ég á von á að byggingarnefndin muni taka þetta til umfjöllunar þegar farið verður yfir þetta. En ég er spenntu að sjá hvort fólk taki ekki við sér og komi með einhver skemmtileg nöfn sem að sem eiga sér sína sögu eða sína framtíðarsögu,“ segir bæjarstjórinn að lokum.

Tillögur að nafni, ásamt rökstuðningi, skulu sendar byggingarnefnd í pósti merkt Byggingarnefnd hjúkrunarheimilis Nafnasamkeppni, Lyngási 12, 700 Egilsstaðir. Tillögurnar sendist inn undir dulnefni, en rétt nafn höfundar fylgi með í lokuðu umslagi.

Byggingarnefndin áskilur sér rétt til að velja hvaða tillögu sem er eða hafna öllum. Skilafrestur er til 20. janúar 2015.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar