Hvetur fólk til að spá í friðarboðskapinn á gamlársdag: Ég tók þetta bara upp hjá sjálfum mér
Pétur Kristjánsson, þjóðfræðingur frá Seyðisfirði hvetur sem flesta til að taka sér tíma á gamlársdag eða gamlárskvöld til að syngja lagið Imagine eftir John Lennon og hugsa um friðarboðskapinn.„Þetta gengur einfaldlega út á það að flytja lagið Imagine annaðhvort sjálfur eða með öðrum eða hreinlega bara spila það og íhuga boðskapinn. Þetta getur ekki verið einfaldara. Þetta getur fólk gert hvenær sem er og hvar sem er á gamlársdag eða gamlárskvöld,“ segir Pétur í samtali við Austurfrétt.
Pétur hefur stofnað til viðburðar á facebook og þar vitnar hann í Yoko Ono: „Draumur sem þú dreymir einn er aðeins draumur. En draumur sem margir dreyma á sama tíma verður að veruleika .“
„Ég er friðarsinni og ég trúi að ef við öll beinum hugum okkar og hjörtum að friði þennan dag gerist eitthvað gott. Ég held að flestir vilji koma á friði. Fólk verður líka að gera sér grein fyrir að stríð er ekki eins og veðrið eða náttúruhamfarir. Stríð geta hætt ef maðurinn vill.“
En hvaðan kemur hugmyndin? „Ég tók þetta bara upp hjá sjálfum mér, og ég valdi þennan dag því hann er ágætur til að gera eitthvað svona. Hann tengist ekki neinum trúarbrögðum eða pólitík. Mín ósk er bara að fólk spái í boðskapinn því friðarboðskapurinn er ekki úrelt fyrirbæri. Ég hvet því alla til að taka þátt og deila viðburðinum á sem flesta.,“segir Pétur að lokum
Skoða viðburðinn á facebook HÉR