Í fimm ár á Tærgesen: Vantar ferðamenn austur yfir veturinn

jonas taergesen jan14Í byrjun desember voru liðin fimm ár frá því að Jónas Helgason veitingamaður hóf rekstur í Tærgesen-húsi á Reyðarfirði. Hann er stoltur af langri sögu hússins sem innan skamms gæti öðlast heimsfrægð.

„Þetta hefur verið veitinga- og gistihús frá árinu 1938 og er væntanlega það næst elsta í þeim bransa á landinu á eftir Hótel Borg," segir Jónas.

Dansættaður útgerðarmaður, Peter Tærgsen, byggði húsið í Litlu-Breiðuvík við Eskifjörð árið 1878. Hann varð gjaldþrota og keypti Jón Magnússon, kaupmaður, húsið og lét flytja það inn á Búðareyri.

Hann notaði það fyrir verslun og því hlutverki hélt húsið áfram eftir að Kaupfélag Héraðsbúa eignaðist það. Í því hefur verið fjölbreytt starfsemi: kennsla, ullarvinnsla og kvikmyndasýningar svo dæmi séu nefnd. Þá lagði breski herinn það undir sig á stríðsárunum og notaði það undir yfirmenn.

Þegar KHB opnaði nýja verslun beint á móti Tærgesen var húsinu breytt í gistihús sem það hefur verið nær allar götu síðan.

En Jónas er ekki bara með rekstur í Tærgesen. Neðan við húsið er skemmtistaðurinn Kaffi Kósý þar sem áður byggingavörudeild KHB og fyrir ofan hefur hann byggt við mótel með 22 herbergjum sem tekið var í notkun sumarið 2013.

Þá hefur hann verið með rekstur Hótels Austur frá því í nóvember 2013. „Það fer að verða ótrúlega mikið gistipláss hér á Reyðarfirði því fleiri hafa stækkað við sig.

Eins og víðar fyrir austan er nýtingin góð yfir sumarið en það hefur vantað ferðamenn yfir veturinn."

Það lífgaði hins vegar upp á síðasta vetur að fá tökulið Fortitude-þáttanna í gistingu. Þættirnir, sem verða frumsýndir eftir mánuð, gætu reyndar fært Tærgesen nýtt hlutverk og nýja frægð.

„Bæði Tærgesen og Kósý eru notuð sem leikmunir og þjóna sem hótel og bæjarbarinn í þáttaröðinni. Húsunum var breytt aðeins en síðan voru smíðaðar eftirmyndir af þeim í fullri stærð í myndveri úti í London," segir Jónas.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar