Breiðdalur: Margfalt fleiri mýs en undanfarin ár

kind musetin arnaldur sigBændur í Breiðdal segja margfalt fleiri mýs á ferðinni þar heldur en síðustu ár og tala um faraldur. Mýsnar hafa valdið tjóni á heyforða og jafnvel lagst á sauðfé.

„Þetta er ekkert í líkingu við það sem verið hefur. Það er helst hægt að líka þessu við faraldur. Magnið á músum er margfalt á við síðustu ár," segir Hrafnkell Lárusson sem annast hefur búið að Gilsá fyrir foreldra sína síðan í byrjun nóvember.

Hann segir þau hafa búð þar í um 40 ár en ekki séð víðlíka músagang fyrr en nú. Þær hafi líka mætt fyrr en ella.

„Þær sáust strax í september sem okkur finnst óvenjulegt í ljósi þess hversu gott haustið var. Yfirleitt koma þær ekki fyrr en í október eða nóvember.

Pabbi sá bæði músaholur í nágrenni bæjarins en ekki síður varð hann var við að mýsnar voru byrjaðar að grafa sig niður á kartöflurnar í kartöflugarðinum."

Hrafnkell segir reynt að veiða þær mýs sem komi inn í húsin til að halda þeim í skefjum en utandyra halda þeim engin bönd. Þar hafa þær skemmt heyforðann.

„Eftir því sem við komum lengra inn í rúllustæðurnar sem standa úti því meira finnum við af músétnum rúllum. Það er nánast regla að þegar komið er aðeins inn í stæðuna þá eru þar rúllur skemmdar eftir mýs, jafnvel þannig að op er rifið á þær endilangar.

Þetta þýðir að við fáum rúllur sem eru jafnvel alveg ónýtar eða verulega skemmdar. Bæði er það beint fjárhagslegt tjón auk hættu á að skemmt fóður berist í skepnurnar með tilheyrandi vanþrifum og tjóni."

Hrafnkell segist hafa heyrt sambærilegar sögur frá tveimur bæjum í viðbót. Þá eru dæmi um að mýsnar hafi lagst á sauðfé og sært en myndir af slíku hafa gengið um netið frá Hlíðarenda í Breiðdal.

„Við uppgötvuðum kind sem var með sár á bakinu og við getum ekki ályktað að það hafi verið eftir annað en mús. Við gengum úr skugga um að það var ekkert í hennar umhverfi sem hún gat rifið sig á. Til viðbótar var ullin reitt annars staðar á bakinu á henni."

Breiðdælingar vita ekki hvað veldur músaganginum. „Það hafa verið tvö hlý sumur og síðan góð haust en maður staldrar við spurninguna um hvort það geti verið fleira í umhverfinu sem valdi þessu, til dæmis eldgosið."

Kind særð eftir mús. Mynd: Arnaldur Sigurðsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar