Kópur kominn aftur á Eskifjörð eftir 20 ára fjarveru: Það er æðislegt að koma bátnum heim eftir öll þessi ár.

Kopu eskifjordur gamaltSá skemmtilegi viðburður átti sér stað í byrjun janúar að Kópur Su 460 kom aftur til Eskifjarðar eftir tuttugu ára millilendingu í Hafnarfirði.

„Þessi bátur er smíðaður 1978 og er sem sagt síðasti báturinn sem smíðaður er á Eskifirði sem ennþá er til. Hann var smíðaður af Geira Hólm. Það var æskuvinur minn Egill Helgi Árnason sem hafði upp á bátnum sem var búin að vera upp á landi í höfninni í Hafnarfirði síðustu fimmtán ár,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Fiskimiða efh. á Eskifirði, og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar í samtali við Austurfrétt.

„Við félagarnir ég og Egill sem rekur útgerð á Kanarí ákváðum að taka á okkur smá menningarvörslu og bjarga þessum bát. Við fengum hann fyrir litið sem ekki neitt. En þegar báturinn kom hingað heim sáum við að það er ærið verkefni fyrir höndum að gera bátinn upp."

En eru strákarnir á leið í útgerð? „Nei, alls ekki. Við vinirnir erum miklir áhugamenn um að viðhalda gömlum húsum á svæðinu. Ég gerði til dæmis upp gamalt hús hérna fyrir tveimur árum, Dalshúsið. Þar erum við með listsýningar. Síðan er Egill að fara að gera upp sjóhús sem langafi okkar átti og þar verður endurbyggð gamla bryggjan og er hugmyndin okkar að báturinn yrði til sýnis við bryggjuna á sumrin. En svo gætum við félagarnir alveg farið okkur eitthvað á voða í firðinum þegar vel viðrar,“ segir Jens og hlær.

„Báturinn er allavega kominn í hús og nú þarf að gefa honum tíma að þorna. Við erum komnir með smið í verkið og þegar báturinn er orðinn þurr verður farið í að hvað í raun eftir lifir af honum og hvað þarf að byggja upp. Við erum samt alveg búnir að átta okkur á því eftir að við sáum bátinn að hann er ekki að fara á flot fyrir sjómannadaginn 2015, það er alveg á hreinu. En þetta er voða gaman og bara æðislegt að við gátum komið Kópi heim á Eskifjörð eftir öll þessi ár.“

Mynd 1: Kópur ungur og sprækur
Mynd 2: Kópur við heimkomuna. Það er mikið verk fyrir höndum að koma honum aftur á flot.

Kopur eskifjordur


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar