Vökukonur öflugar á liðnu ári: Lögðu rúma miljón til samfélagsins á Djúpavogi

Iþrottamidstodin djupavogi folkKvenfélagið Vaka á Djúpavogi lét heldur betur til sín taka á nýliðnu ári eins og svo mörg undanfarin ár. Árið 2014 lagði kvenfélagið rúmlega eina miljón króna til samfélagsins á Djúpavogi.

„Það var tekin ákvörðun fyrir nokkrum árum að peningurinn sem við söfnum færi eingöngu í heimabyggð. Við erum hættar að styrkja samtök út um allt land. Við erum með nokkra fasta punkta sem við styrkjum alltaf eins og til dæmis grunnskólann. En það er alltaf þörf á að leggja góðu málefni lið. Undanfarin ár og höfum við meðal annars styrkt íþróttamiðstöðina, Tónskólann, leikskólann og kirkjuna. Eins erum við til staðar þar sem þörfin er og höfum styrkt fjölskyldur sem hafa átt í erfiðleikum, og þá oftast í kringum dauðsföll. Það er óhætt að segja að við komum viða við,“ segir Bergþóra Birgisdóttir, varaformaður kvenfélagsins.

Ein miljón til samfélagsins

Árið 2014 styrktu Vöku konur eftirfarandi verkefni með peningagjöfum:

500.000 kr. rann til kaupa á Ipad tölvum fyrir frunnskólann.
250.000 kr. voru lagðar til við komu Rúdolfs Adolfssonar sálfræðings.
170.000 kr. runnu til íþróttamiðstöðvar til kaupa á ýmsu sem nýtist yngstu notendunum.
28.000 kr. voru lagðar til kaupa á gólflömpum í Tryggvabúð.
140.00. kr. fóru í styrk til tveggja fjölskyldna

Hvernig fjármagnið þið peningagjafirnar? „Okkur dettur ýmislegt í hug. Við seljum til dæmis alltaf blóm. Það er fastur liður hjá okkur. Við erum til dæmis að fara að ganga í hús í kvöld og selja blóm í tilefni bóndadagsins á morgun. Við erum alltaf með bingó, svo seljum við bolludagsbollur í fyrirtæki. Við bökum þær sjálfar og setjum gúmmelaðið á þær á bolludagsmorgun og keyrum út í fyrirtæki sem þá eru búin að panta hjá okkur. Þetta er alveg 400 bollur sem við erum að baka ár hvert. Svo má ekki gleyma að við förum alltaf á Öxi. Við þrífum stikurnar á öxi á sumrin, seljum kerti og erum með jólamarkað. Það er alveg eitt og annað sem við tökum okkur fyrir hendur til að láta gott af okkur leiða.“

Að gera samfélagið betra

Starfsár Vöku er frá október og fram í maí og eru nítján konur í félaginu. Fundir eru haldnir fyrsta þriðjudag á mánuði. „Við viljum gjarnan fá fleiri konur með okkur í kvenfélagið. Það hefur ekki verið mikil aukning. Sú nýjasta kom til liðs við okkur fyrir tveimur árum.“ Heldurðu að kvenfélög séu vanmetin? „Já, stundum finnst mér það. Ég hef heyrt margar konur segja að þær vilji ekki fara í kvenfélög því konurnar eru alltaf að baka. Því er fjarri lagi. Við í Vöku bökum einu sinni á ári og það eru bollurnar fyrir bolludaginn. Við erum líka aldrei með kökubasara eða eitthvað svoleiðis. Þetta hefur breyst. Í dag mundi ég skilgreina kvenfélag sem félagskap kvenna sem hafa áhuga og vilja gera samfélagið sitt betra. Ég hvet konur hiklaust að vera með í svona starfsemi. það væri allavega gaman að sjá ný andlit í Vöku ,“ segir Bergþóra að lokum.

Kvenfélagið Vaka verður með sinn árlega Gestafund í félaginu þriðjudaginn 3. Febrúar næstkomandi á Hótel Framtið kl. 20:30. En þar er hægt að kynna sér starfsemina og slást í hópinn.

Mynd: Vökukonurnar Bergþóra Birgisdóttir og Ingibjörg Stefánsdóttir þegar þær afhentu Andrési Skúlasyni, forstöðumanni íþróttamiðstöðvarinnar gjafirnar frá félaginu á liðinu ári.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.