FAB LAB heillaði ráðherrann
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, gerði lykkju á leið sína í ferð þegar hún var á Egilsstöðum í síðustu viku og kynnti sér Fab Lab-stofu Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.Elvar Jónsson, skólameistari, tók á móti ráðherra, sem þótti mikið til Fab Labsins koma. Með ráðherra í för voru Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri atvinnumála hjá Fjarðabyggð.
Ráherra fékk einnig kynningu á Áfangastaðnum Austurland, sem áfangastaðarhönnuðurinn Daniel Byström leiðir, en að verkefninu standa Ferðamálasamtök Austurlands í samstarfi við Austurbrú og sveitarfélögin á Austurlandi. María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sá um kynninguna, sem fram fór á Hótel Hildibrand í Neskaupstað.
Iðnaðarráðherra var staddur á Austurlandi vegna kynningarfundar um náttúrupassann á Egilsstöðum.
Mynd: Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, kynnti sér tæknina að baki Fab Labsins, í heimsókn sinni á Austurlandi nýlega.