Fjarðabyggð: Verklegt er vitið hlýtur veglegan styrk

Fjardabyggd styrkurMagnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, afhenti í dag Páli Björgvini Guðmundssyni, bæjarstjóra, styrkúthlutun Alcoa Foundation til skólaverkefnisins Verklegt er vitið. Styrkurinn nemur samtals um 11 milljónum króna.

Í skólum Fjarðabyggðar er nú unnið markvisst að því að styrkja námsgrunn raun- og tæknigreina. Um þriggja ára átaksverkefni er að ræða sem nefnist Verklegt er vitið og felur m.a. í sér bætta menntun og þjálfun kennara, aukið framboð á verklegum valgreinum á unglingastigi, bætta aðstöðu til tilraunakennslu í eðlis- og efnafræði og aukna kennslu í tæknilegó og nýsköpun.

Meginmarkmið verkefnisins er að styrkja tækninám í grunnskólum Fjarðabyggðar með það fyrir augum að fleiri nemendur velji tæknigreinar að loknu námi í grunnskóla.

Verkefnið er til þriggja ára átaksverkefni sem spannar árin 2013, 2014 og 2015. Framkvæmd þess er þríþætt þ.e. að taka upp raungreinatengd námsgögn á leikskólastigi, styrkja kennslu í verk- og tæknigreinum á grunnskólastigi og auka sýnileika verk- og tæknimenntunar í skólastarfi ásamt því að auka tengsl atvinnulífs og VA við grunnskólana. Skólaárið 2013 til 2014 var skilgreint sem tilraunaár og hófst verkefnið af fullum þunga haustið 2014.

Að verkefninu loknu verður árangur metinn og ákvarðanir teknar um framhald. Vonir standa jafnframt til þess að verkefnið skili sér í varanlegum viðhorfsbreytingum innan skólakerfis sveitarfélagsins gagnvart stöðu raun- og tæknigreina og að samstarf á milli skóla og atvinnulífs, vegna námsferða og starfs- og starfsgreinakynninga, festi sig í sessi.

Mynd: Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Þóroddur Helgason fræðslustjóri Fjaraðbyggðar, við styrkafhendinguna í dag. Afhending fór fram í raungreinastofu Grunnskóla Eskifjarðar.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.