Bestu hrútlömbin frá Sléttu og Bustarfelli

lombBændur á Sléttu í Reyðarfirði og Bustarfelli í Vopnafirði áttu hæst dæmdu austfirsku hrútlömbin síðasta haust. Sérfræðingur í sauðfjárrækt segir lambadóma hafa verið glæsilegri í haust en nokkru sinni áður.

Þetta kemur fram í samantekt Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins á sauðfjárdómum frá nýliðnu hausti. Í Bændablaðinu var nýverið birtur listi yfir fimm stigahæstu hrútana í hverri sýslu.

Tveir stigahæstu hrútarnir í Norður-Múlasýslu komu báðir frá Bustarfelli og voru undan hrútinum Steini en þeir fengu 87 og 86,5 í meðaleinkunn.

Hæst dæmdi lambhrúturinn í Suður-Múlasýslu var hins vegar á Sléttu í Reyðarfirði undan Jökli og fékk 88 í heildareinkunn. Sá hrútur vó 65 kg og var með 40 í vöðva, sem telst afar gott.

Á vef RML er einnig birtur listi yfir hæstu búsmeðaltöl fyrir bakvöðva þar sem skoðaðar voru 50 gimbrar eða fleiri í haust.

Hæsta meðaltalið í Norður-Múlasýslu var í Bessastaðagerði í Fljótsdal, 29 en í Suður-Múlasýslu á Hjartarstöðum 1 í Eiðaþinghá, 30,9.

Í samantekt Eyþórs Einarssonar, ábyrgðarmanns RML í sauðfjárrækt í Bændablaðinu segir að niðurstöður haustsins eftir lambadóma séu glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Bakmælingar á hrútlömbum komi heim og saman við niðurstöður úr sláturhúsi.

Vænleiki hafi víða verið geysimikill, sérstaklega á Norður- og Austurlandi.

Breytilegt sé þó milli sýslna hversu stór hluti lambanna sé skoðaður. Hæst sé hlutfallið í Strandasýslu þar sem tæpur fjórðungur lambanna er skoðaður en lægst er það í Norður-Múlasýslu, aðeins 5,7%.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar