Pinnið á minnið: Langflestir með þetta á hreinu!

Heidar netto ausViðskiptavinir verslana eru löngu orðnir vanir að posinn snúi að þeim sem verslar, sem staðfestir þar kortagreiðslur með pin-númeri í stað undirskriftar. Korthafar sem muna ekki pinnið hafa hingað til getað staðfest greiðslur með því að ýta á græna takkann á posanum. En ekki lengur.

Mánudaginn 19. Janúar síðastliðin hófu útgefendur greiðslukorta afnám þessarar undanþágu. Nú þurfa korthafar alltaf að staðfesta með pin-númeri eða eiga á hættu að ekki fáist heimild fyrir viðskiptum. En hvernig hefur gengið? Austurfrétt heyrði í Heiðari Róbert Birnusyni, verslunarstjóra í Nettó á Egilsstöðum til að kanna hvernig viðskiptavinum hans hefur gengið að leggja pinnið á minnið.

Einn og einn í vandræðum

„Það hefur gengið vonum framar. Ég hélt að fyrstu dagarnir yrðu erfiðir, en það virðist vera að langflestir hafi þetta á hreinu. Það samt einn og einn í smávandræðum, og svo hef ég tekið eftir því að það eru einhverjir sem eru með pinnin skrifuð á miða og hafa í töskunni sinni. Það er ekki mælt með því. Það getur hreinlega verið hættulegt ef einhverjir óprúttnir komast í töskuna,“ segir Heiðar í samtali við Austurfrétt.
Hefur fólk þurft frá að hverfa frá við afgreiðslukassana því það man ekki pinnið? „Já, það kom alveg nokkrum sinnum fyrir. Í þeim tilfellum hefur fólk bara farið og græjað þetta og komið svo aftur til að klára sín viðskipti og ekkert mál. En almennt er fólk með þetta á hreinu. Við í Nettó höfum alveg síðan í desember minnt þá á sem ýta á græna takkann að 19. janúar þurfi fólk að muna pinnin sín svo ég tel að viðskiptavinir okkar séu nokkuð vel undir þetta búnir, það hefur allavega enginn labbað héðan út í fússi síðan breytingin átti sér stað.“

Hægt að sækja um undanþágu

En hefur verslunarstjórinn góð ráð til þeirra viðskiptavina sem eru ekki með þetta á hreinu? „Fyrst og fremst til að forðast óþægindi skiptir miklu að korthafar leggi pinnið á minnið héðan í frá, hafi þeir ekki gert það nú þegar. Það er auðvelt að nálgast pinnið í netbönkum, öppum eða hjá þeim banka eða kortafyrirtæki sem gefur út kortið. En fyrir þá sem hreinlega eiga erfitt með að muna geta þeir hinir sömu fengið undanþágu í bankanum til að geta áfram ýtt bara á græna takkann, en það þarf að sækja sérstaklega um það.“ En hvernig hefur verslunarstjóranum gengið að leggja pinnið á minnið? „Ég hef ekki lent í neinum vandræðum. Ég fékk svo einfalt pin-númer sem auðvelt er að muna, ég var heppinn með það,“ segir Heiðar að lokum.

Mynd: SL

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar