„Okkar fólk er tilbúið að láta sverfa til stáls"
„Kröfur okkar eru bæði sanngjarnar og eðlilegar. Grundvallaratriði er að fólk geti framfleytt sér og sínum af dagvinnulaunum í stað þurfa að treysta á yfirvinnu, aukavinnu og akkorð," segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs Starfsgreinafélags á Austurlandi.Starfsgreinasamband Íslands hefur birt atvinnurekendum kröfugerð sína vegna komandi kjaraviðræðna, en sambandið fer með samningsumboð fyrir AFL og fimmtán verkalýðsfélög til viðbótar. Kröfurnar mótuðust á fundum í félögunum og á vinnustöðum um land allt og segir Hjördís Þóra að kröfur AFLs hafi verið á sömu nótum.
„Við förum fram á krónutöluhækkanir á laun og að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára og sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir. Þá leggjum við áherslu á að launatöflur verði endurskoðaðar, desember- og orlofsuppbætur hækki, vaktaálag verði endurskoðað, lágmarksbónus verði skilgreindur í fiskvinnslu og ný starfsheiti verði skilgreind í launatöflu."
Samtök atvinnulífsins lýstu strax yfir vonbrigðum með kröfur Starfsgreinasambandsins og benda á að launabreytingar í nágrannalöndum séu á bilinu 2% til 4% á ári. Svigrúmið til að hækka launin sé þess vegna takmarkað í augnablikinu. Hjördís Þóra segist undrast þessi viðbrögð.
„Já, ég geri það og velti því fyrir mér hvort atvinnurekendur hérna fyrir austan séu sammála talsmönnum Samtaka atvinnulífsins. Á þessari stundum leyfi ég mér að efast um að austfirskir atvinnurekendur séu á sama máli, það kemur sjálfsagt fljótlega í ljós."
Hjördís bendur á nýja skýrslu um laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. „Þar kemur í ljós að munurinn á dagvinnulaunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er mun minni meðal tekjuhærri hópanna en hjá tekjulægri hópunum. Dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi í raun 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.
Þegar verkafólk er skoðað, kemur í ljós að launin hérna eru 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þetta eru tölulegar staðreyndir, sem við þurfum að halda vel til haga. Þegar við leggjum svo fram okkar kröfur, tala atvinnurekendur um að þjóðfélagið fari á hliðina og verðbólgan rjúki upp úr öllu valdi."
Hjördís býst við erfiðum kjaraviðræðum, miðað við fyrstu viðbrögð Samtaka atvinnulífsins. „Okkar fólk er tilbúið að láta sverfa til stáls, ég heyri ekki annað. Auðvitað vona ég að ekki þurfi að grípa til aðgerða, en mér sýnist Samtök atvinnulífsins ætla að keyra öllu í verkföll og ábyrgðin er þeirra. Kröfur okkar eru sanngjarnar og ég trúi ekki öðru en að þjóðin standi með okkur."