Kubbafabrikkan starfar í tveimur löndum: Draumurinn að vera á Seyðisfirði - myndir

Kubb 3Kubbafabrikkan er nútímaleg og nýstárleg arkitektastofa sem opnaði í haust og er staðsett í Kaupmannahöfn í Danmörku og Seyðisfirði á Íslandi. Stofan leggur mikla áherslu á sjálfbæra og vistvæna hönnun og helsta markmið fabrikkunnar er að stuðla að grænni plánetu með tækni úr fremstu röð.

Það eru Símon Ólafsson frá Seyðisfirði og kærasta hans, Anna, sem er arkitekt, sem eiga og reka Kubbafabrikkuna. „Hugmyndin að Kubbafabrikkunni kom í beinu framhaldi af þeirri hugmynd að byggja hús úr gámum og þessi gámahugmynd byrjaði hjá mér fyrir mörgum árum síðan. Ég var að vinna hjá fyrirtæki sem vann með svona gáma og tók ástfóstri við hugmyndina. Síðan þá hef ég verið leika mér með þetta. Ég gerði einmitt lokaverkefnið mitt í byggingarfræðinni eingöngu úr gámum,“ segir Símon í samtali við Austurfrétt.

Fyllist innblæstri á Seyðisfirði

Símon er byggingarfræðingur og lauk hann námi frá KEA (Københavns Erhvervsakademi) vorið 2011. Hann er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og er sonur hjónanna Ólafs I. Mikaelssonar og Guðrúnar Vilborgar Borgþórsdóttur. Hann er því af Mikkalingaættinni sem margir þekkja. En þrátt fyrir að Símon búi í Kaupmannahöfn sem stendur, hefur hann sterka tengingu við æskuslóðirnar.
„Seyðisfjörður er náttúrulega fallegasti staðurinn á landinu og það er svo „kreatívur“ andi þar. Í hvert sinn sem við Anna komum í heimsókn langar okkur bara að fara að gera eitthvað, teikna eitthvað eða byggja eitthvað. Við fyllumst svo miklum innblæstri að það er æðislegt. Þess vegna er það draumurinn að vera þar í framtíðinni, allavega með annan fótinn. Raunveruleikinn er hins vegar sá að við búum í Kaupmannahöfn eins og er og vinnum þetta héðan. En nútímatæknin er svo mögnuð að það er hægt að vinna nánast hvar sem er í heiminum í dag,“ segir hann.

Vistvæn hönnun það sem koma skal

Á heimasíðu Kubbafabrikkunar, www.kubbafabrikkan.is segir: „Við teljum að með því að nota nýjustu byggingaraðferðir, sjálfbær og vistvæn efni ásamt því að hafa áherslu á endur-vinnslu, „upcycling“ (að nota ónýt efni eða úrgang í betri afurðir eða til að bæta umhverfið) og lífsferli efnanna, er leiðin fram á við í byggingarbransanum.“
„Okkar markmið og framtíðarsýn í Kubbafabrikkunni er að gera flottan arkitektúr og allra helst vistvæn og græn mannvirki. Það er það sem við brennum mest fyrir. Vistvæn hönnun í arkitektúr er það sem koma skal. Við eigum bara einn heim og við verðum að gera gott úr því. Það er eytt ótrúlega miklu af vitlausri orku við að byggja byggingar í dag. Það hlýtur að vera hægt að gera þetta á skaðminni hátt, eins og að byggja úr gámum, eða byggja til dæmis úr vistvænum efnum og sem hægt er að finna í næsta nágrenni. Eins og á Austurlandi, þar er hægt að finna helling af viði. Það væri vel hægt að byggja hús úr austurlensku timbri, sem er alveg frábær hugmynd.“

Fjölbreytt þjónusta

En hvaða þjónustu bjóðið þið upp á: „Eins og hver önnur arkitektastofa bjóðum við upp á allt sem arkitektar gera. Hvort sem það eru stór eða lítil verkefni. Einbýlishús, veiðikofi eða hótel. Nefndu það bara. En eins og áður hefur komið fram viljum við fyrst og fremst hanna þau verkefni sem við tökum að okkur á vistvænan hátt og ef að við getum tvinnað gámana inn í það mannvirki sem byggja skal, þá er það mjög vistvænn háttur að byggja. Að endurvinna gám, eða gefa honum nýtt líf sem byggingu, þá bætir þú 50-80 árum við líftíma gámsins. Það er ofurendurvinnsla.“

Þolir íslenskt veðurfar

En hver er reynslan af þessum húsum? Þola þau íslenska veðráttu? „Já, þau gera það 100%. Þetta fer allt eftir því hvernig maður hannar þau. Gámarnir eru hugsaðir sem burðarþol hússins en ekki útlitið. Ég hef unnið með fyrirtækjum sem hafa byggt svona hús víða og reynslan er gífurlega góð. Við erum einmitt með 100 fm. einbýlishús á teikniborðinu sem verður vonandi reist hér í Danmörku á þessu ári. Það er á einni hæð sem ég byggi úr fjórum gámum. En hér í Danmörku snýst allt um græna hönnun og vistvænan lífsstíl. Fólk er að færast alltaf meira og meira í þessa átt, líka á Íslandi, enda er þetta það sem koma skal,“ segir Símon að lokum.
Kubb 4
kubb 1 simon

kubb 2
kubb 5

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar