Dýrustu árskortin í sund á Austurlandi
Dýrasta árskortið í sund er á Fljótsdalshéraði og það þriðja dýrasta í Fjarðabyggð. Í Fjarðabyggð er einnig að finna dýrustu stöku stundmiðana fyrir fullorðna.Þetta kemur fram í nýrri verðkönnun ASÍ hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins sem birt var í dag.
Árskort fullorðinna í sund kostar 35.700 krónur hjá Fljótsdalshéraði en 33.000 krónur í Fjarðabyggð. Á milli kemur Akureyri þar sem árskortið kostar 33.000 krónur. Ódýrast er árskortið á Ísafirði, 16.000 krónur.
Árskortið hjá Fljótsdalshéraði hækkaði um 10% á milli ára en 3% hjá Fjarðabyggð líkt og sex öðrum sveitarfélögum í könnuninni.
Í Fjarðabyggð kostar stakur sundmiði 650 krónur líkt og í Reykjavík en miðarnir eru dýrastir þar. Á Fljótsdalshéraði kostar sundmiðinn 600 krónur eins og í fimm öðrum sveitarfélögin. Bæði sveitarfélögin hækkuðu sundmiða sína um 50 krónur. Ódýrastur er sundspretturinn á Akranesi, 415 krónur.
Óvenju hagstætt er hins vegar að kaupa tíu miða kort eystra, það kostar 3.800 krónur í Fjarðabyggð en 4.150 á Fljótsdalshéraði. Dýrast er kortið í Kópavogi, 4.700 krónur en ódýrast í Vestmannaeyjum, 3.400 krónur.
Dýrasta árskortið fyrir börn á grunnskjólaaldri er einnig á Fljótsdalshéraði, 15.400 krónur en þriðja dýrast í Fjarðabyggð, 11.500 krónur. Á milli kemur Garðabær þar sem árskortið kostar 14.000 krónur. Fjögur sveitarfélög bjóða ekki upp á slík kort en ódýrast er það á Akureyri, 2.000 krónur.
Stakur sundmiði er dýrastur í Ísafjarðarbæ, kostar 290 krónur en næst dýrastur á Fljótsdalshéraði, 270 krónur. Í Fjarðabyggð kostar hann 200 krónur. Ódýrast er á Seltjarnarnesi, 120 krónur.
Tíu miða kortið er sömuleiðis dýrast í Ísafjarðarbæ, 2.275 krónur en næst dýrast á Fljótsdalshéraði og Skagafirði, 1.650 krónur. Það kostar 1.150 krónur í Fjarðabyggð. Ódýrast er það í Hafnarfirði, 870 krónur.
Úttektina í heild sinni má sjá á vef ASÍ.