Dagur leikskólans: Viljum minna á hvað íslenskir leikskólar vinna frábært starf
Dagur leikskólans er í dag og er hann haldinn hátíðlegur um allt land. Þetta er í áttunda skipti sem dagurinn er haldinn en 6. febrúar er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar úr hópi leikskólakennara fyrstu samtök sín.Krakkarnir í leikskólanum Tjarnaskógi á Egilsstöðum ætla svo sannarlega að gera sér dagamun og ætla þau að vera á flakki um bæinn í dag, til að sýna sig og sjá aðra. Meðal annars fara elstu börnin í heimsókn á bæjarskrifstofuna þar sem forseti bæjarstjórnar tekur á móti þeim.
„Við erum búin að eiga frábæran dag hér í Tjarnaskógi og það er í nægu að snúast. Foreldraráð og foreldrafélagið mætti hérna með grænmeti og ávexti og skreyttu leikskólann með fallegum og uppbyggilegum orðum um starfið okkar frá foreldrum. Þetta gladdi okkur mikið. En dagur leikskólans gengur í raun út á þetta, að minna á og vekja athygli á hvað íslenskir leikskólar eru að vinna frábært starf,“ segir Sigríður Herdís Pálsdóttir, leikskólastjóri Tjarnaskógar.
Fyrirlestur á nokkrum stöðum
Af tilefni dagsins ætlar svo Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda í leikskólum á Austurlandi að bjóða upp á fyrirlestur í fjarfundi á nokkrum stöðum á Austurlandi frá kl: 17:00 – 19:00 .
Fjarfundarstaðirnir verða á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Vopnafirði, Neskaupstað, Reyðarfirði, Djúpavogi og Höfn.
Fyrirlesturinn fjallar um málþroska, sem er undirstaða læsis og í leikskóla skal unnið að læsi í víðum skilningi. Verður farið yfir aðferðir til að efla málþroska barna með málörvun og læsishvetjandi viðfangsefnum. Kenndar verða aðferðir við að skipuleggja læsishvetjandi umhverfi sem vinnur með kennurum að því að byggja upp nauðsynlega þekkingu, færni og þroska. Fyrirlesari og kennari er Anna Elísa Hreiðarsdóttir, leikskólakennari og lektor við HA.
Nýtum okkur tæknina
„Við erum að nýta okkur tæknina. Það er alltaf verið að bjóða upp á einhverja skemmtilega fyrirlestra, en þar sem við búum fyrir austan er oft erfitt fyrir okkur að komast. Kostar okkur flug og fleira. En í þetta skipti notum við fjarfundabúnaðinn á Austurbrú og bjóðum upp á fjarfund þar sem er fyrirlesarinn talar frá Akureyri og við hlustum hérna heima. Við tökum fyrir læsi sem er akkúrat málefni sem margir eru að horfa í núna, svo við hvetjum alla til að koma,“ segir Sigríður að lokum.
Mynd 1: Krakkarnar flagga í tilefni dagsins.
Mynd 2: Foreldraráð og foreldrafélagið setti upp kassa fyrir viku í fataherbergjum þar sem foreldrar máttu skrifa eitthvað jákvætt um starfið. Foreldraráðið var síðan í morgun búið að hengja þessa miða upp fyrir okkur starfmenn og buðu síðan upp á veitingar á kaffistofu leikskólans.
Mynd 3: Hópur af krökkum Heimsækir menntaskólann.
Mynd 1: Krakkarnar flagga í tilefni dagsins.
Mynd 2: Foreldraráð og foreldrafélagið setti upp kassa fyrir viku í fataherbergjum þar sem foreldrar máttu skrifa eitthvað jákvætt um starfið. Foreldraráðið var síðan í morgun búið að hengja þessa miða upp fyrir okkur starfmenn og buðu síðan upp á veitingar á kaffistofu leikskólans.
Mynd 3: Hópur af krökkum Heimsækir menntaskólann.