Frumkvöðlasetur opnað í Hugvangi: Fáum reglulega inn fólk með hugmyndir

hugvangur frumkvodlasetur 0005 webFljótsdalshérað, AFL starfsgreinafélag, Austurbrú og AN Lausnir hafa gert samkomulag um frumkvöðlasetrið Hugvang á Egilsstöðum. Framkvæmdastjóri AN Lausna, sem hýsa setrið, segir mikla eftirspurn eftir stuðningi með fólk með hugmyndir.

„Við höfum rými og þekkingu innanhúss til að aðstoða til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Við fáum mikið af fólki með hugmyndir hingað inn en höfum hins vegar ekki ein og sér bolmagn til að taka við verkefnunum og halda utan um það. Þess vegna er frábært að fá þessa aðila að borðinu," segir Erlingur Þórarinsson, framkvæmdastjóri AN Lausna.

Um er að ræða þrjú vinnurými í Hugvangi sem hýsti áður skrifstofur Kaupfélags Héraðsbúa en hefur í tvö ár hýst starfsemi þekkingarfyrirtækja á borð við AX North, AN Lausnir, Austurnet og Austurfrétt.

Samstarfsaðilarnir skipa saman stjórn og Austurbrú leggur til verkefnastjóra sem aðstoðar frumkvöðlana. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, vonast til að samstarfið verði árangursríkt.

„Hugsunin er að búa til umgjörð sem hvetur fólk með hugmyndir áfram og veitir því nauðsynlega aðstoð til að þær verði að veruleika.

Frumkvæðið kom frá AN Lausnum og mér fannst hugmyndin strax áhugaverð. Mín reynsla er sú að það sé oft betra að hugmyndir að verkefnum sem þessum komu ekki frá embættismönnum sveitarfélagsins heldur utan frá.

Sveitarfélögin verða oft leiðandi ef þau eru með frumkvæðið og þá hefur fólk aðrar væntingar sem leiða ekki endilega til sama árangurs."

Björn segir einnig mikilvægt að ábyrgðinni sé dreift á milli aðila. „Hugvangur hefur sjálfstæða stjórn og lítur ekki pólitík eða stefnu ákveðins aðila. Ég held að það skipti máli að setrið sé óháð."

Í setrinu er unnið eftir svokallaðri kúluhugmyndafræði sem þróuð hefur verið af fyrirtækjunum sem þegar eru á hæðinni.

Kúla er afmarkað verkefni sem hefur fjárhagslegt og verkefnaleg sjálfstæði. Hver aðili leggur sitt í púkkið, hvort sem það er vinna eða tæki, og síðan er stóra verkefninu skipt upp í smærri verkþætti sem kallaðir eru sprettir.

Að loknum hverjum spretti er staðan tekin og metið hvort haldið sé áfram með verkefnið. „Kosturinn við kúlumyndafræðina er að menn æða ekki út í að stofna fyrirtæki til að prófa hugmynd.

Við höfum dæmi um fyrirtæki hér á hæðinni eins og AN Lausnir og Austurfrétt sem byrjuðu sem lítil verkefni milli nokkurra einstaklinga en eru nú orðin að fyrirtækjum," útskýrir Erlingur.

Auglýst hefur verið eftir frumkvöðlum sem vilja nýta sér aðstöðuna. Þeir verða síðan boðaðir í viðtöl og umsóknirnar metnar í kjölfarið.

Hægt er að sækja um á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Nánar um kúluhugmyndafræðina má lesa á www.kula.is. Frekari upplýsingar um frumkvöðlasetrið eru á www.anlausnir.is. Upplýsingar um núverandi fyrirtæki í Hugvangi eru á www.hugvangur.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar