Vorhiti á Austfjörðum
Afar hlýtt hefur verið í veðri á Austfjörðum um helgina og er enn. Litlu munaði að hitamet febrúarmánaðar væri slegið á Dalatanga í gær.Hitinn mun mest hafa komist í 17,4 gráður þar um kvöldmatarleytið í gærkvöldið en hitametið er 18,1, sett þar árið 1998.
Víða var hlýtt eystra í gær, um 16 stig á sama tíma á Eskifirði og 15 gráður í Neskaupstað og Seyðisfirði.
Þá var einnig hlýtt á fjöllum en veðurstöðvar á Þórdalsheiði og Oddsskarði sýndu yfir 10 stiga hita í gær. Hitanum hefur fylgt allhvass vindur þannig að hratt hefur gengið á svellin.
Hlýindin koma frá hæð vestur af Bretalandseyjum sem beint hefur heitu lofti til Íslands. Áfram er von á að hlýtt verði í veðri í dag og hvasst þótt kólna taki þegar líður á daginn.
Á miðvikudag og fimmtudag er hins vegar spáð yfir 10 stiga frosti á Austurlandi.
Veðurstofan varar við snörpum en staðbundnum vindhviðum við fjöll á sunnanverðum Austfjörðum, allt að 40 m/s fram yfir hádegi.