Skattadagur: Margir velta fyrir sér hvaða áhrif breytingar á skattalögum hafa á reksturinn

skattadagur kpmg 2014 webForsvarsmenn fyrirtækja, einkum í ferðaþjónustu, velta margir fyrir sér hvaða áhrif breytingar á skattalögum um síðustu áramót koma til með að hafa á rekstur þeirra. Þá eru enn mörg fyrirtæki sem glíma við eftirköst hrunsins.

Þetta segir Magnús Jónsson endurskoðandi sem stýrir starfsemi KPMG á Austurlandi en fyrirtækið stendur fyrir fróðleiksfundi á Hótel Héraði á morgun en skattamál ber hæst á fundinum.

„Það er helst fólk úr atvinnulífinu, bæði frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum sem mætir helst á fróðleiksfundi. Hér fyrir austan hefur fólk verið ánægt með þetta framtak og verið duglegt að mæta og vonandi verður ekki breyting á því," segir Magnús en endurskoðunarfyrirtækin bjóða þessa dagana upp á opna fyrirlestri um skattamál.

Hann segir atvinnurekendur hafa ýmsar spurningar sem snúi gjarnan að skattalagabreytingum. Um síðustu áramót var efra þrep virðisaukaskatts lækkað úr 25,5% í 24% og það neðra úr 7% í 11% sem hækkaði svokallaðan matarskatt. Þá voru vörugjöld felld niður.

„Síðan voru aðrar breytingar gerðar á virðisaukaskattslögunum sem ekki hafa verið eins mikið í umræðunni og ætla mætti þegar horft er til þeirra áhrifa sem að þær breytingar munu hafa.

Þar má nefna breytingu sem hefur þau áhrif að frá áramótum 2016 verður ákveðin tegund fólksflutninga virðisaukaskattskyld, þ.e. fólksflutningar í afþreyingarskyni, en almenningssamgöngur eftir fyrirfram ákveðinni áætlun verða áfram undanþegnar virðisaukaskatti."

Magnús segir margar spurningar á fundum KPMG í ár koma frá aðilum í ferðaþjónustu en sérstaklega verður farið yfir áhrif skattalagabreytinguna á ferðaþjónustuna á morgun.

„Ferðaþjónusta í miklum blóma víðast hvar og er Austurland engin undantekning þar á. Þar eru menn að velta fyrri sér hvaða áhrif skattalagabreytingar hafa á reksturinn, hvað þarf að gera og hvernig er hægt að undirbúa sig fyrir þær breytingar sem boðaðar hafa verið.

Þá eru mörg fyrirtæki enn að glíma við eftirhreytur hrunsins og erfitt hefur reynst að ljúka uppgjöri eignaleigusamninga, sem virðast veltast í dómskerfinu ár eftir ár. Margir velta fyrir sér hvað veldur og hvar þessi mál er í raun stödd.

Við fengum því Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmann hjá Sókn lögmannsstofu, til að fjalla um þessi mál en Hilmar hefur mikla reynslu af þessum málaflokki."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.