Breiðdalsvík: Ekki séð annað eins líf hér í mörg ár

bdalsvik isfiskur 0022 webElís Pétur Elísson, útgerðarmaður á Breiðdalsvík, fagnar tilkomu fiskvinnslu Ísfisks á staðnum eins og margir aðrir íbúar. Áætlað er að þjónusta við útgerð og vinnslan skapi 15-20 störf á staðnum.

„Það er búið að vera mokfiskerí í allt haust og ég hef aldrei séð annað eins líf hér í kringum höfnina í mörg ár," segir Elís Pétur.

Auk þess að gera út eigin bát er hann framkvæmdastjóri Goðaborgar sem þjónustar báta sem landa þar. Hann var líka einn af þeim sem fóru á stúfana og fengu Ísfisk til að koma að vinnslu á Breiðdalsvík.

Hvatinn af því var auglýsing Byggðastofnunar um sértækan byggðakvóta. Hann fékkst ekki í fyrstu atrennu en í haust komu 150 tonn sem skiptast á milli þriggja báta á staðnum.

Í síðustu viku hófst svo formlega vinnsla á Breiðdalsvík í hluta gamla frystihússins. Vinnslan notar um fjórðung af 2400 fermetra rýminu en fyrirhugað er að það hýsi ýmsa aðra atvinnustarfsemi.

„Við teljum að einingin sem slík sé hagkvæm og ég er handviss um að hún muni vinda frekar upp á sig," segir Elís.

Gert er ráð fyrir að 8-10 manns starfi í vinnslunni og annar eins fjöldi hjá Goðaborg. Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, telur að starfsemin eigi eftir að skipta miklu fyrir hreppinn.

„Mér líst vel á vinnsluna. Þetta eru öflugir menn sem reka hana eflaust vel. Við höfum hér unga menn í útgerð sem eru bjartsýnir og hafa nýtt þá möguleika sem hér eru."

Nánar verður fjallað um fiskvinnsluna í Glettum á sjónvarpsstöðinni N4 klukkan 18:30 í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar