Egilsstaðastofa opnuð og tekur Hús handanna við Upplýsingamiðstöð Austurlands?
Búið er að opna upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn á Egilsstöðum undir nafni Egilsstaðastofa. Hús handanna tekur við rekstri Upplýsingamiðstöðvar Austurlands til eins árs en henni var lokað í byrjun nóvember.Skrifað var undir samninga milli sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, Austurfarar og Þjónustusamfélagsins á Héraði um rekstur upplýsingamiðstöðvar Fljótsdalshéraðs til tveggja ára í vikunni.
Til stendur að stofan verði við tjaldsvæði Egilsstaða sem Austurför rak síðasta sumar. Í tilkynningu segir að stofunni sé ætlað að „styrkja og efla upplýsingagjöf um Fljótsdalshérað sem áfangastað ferðamanna og verslunar- og þjónustumiðstöð.
Einnig er henni ætlað að leysa þörf fyrir almenningssalerni og bæta aðstöðu fyrir fólksflutningabíla í miðbæ Egilsstaða."
Þá hefur Austurbrú ákveðið að gagna til samninga við Hús handanna á Egilsstöðum um rekstur Upplýsingamiðstöðvar Austurlands sem lokað var vegna fjárhagsörðugleika í byrjun nóvember. Þetta var niðurstaða stýrihóps sem skipaður var í kjölfar lokunarinnar.
Í tilkynningu segir að ráðstöfunin sé til eins árs og á meðan verði unnið að framtíðarsýn upplýsingamiðlunar til ferðamanna í fjórðungnum.
Fljótsdalshérað borgaði áður eitt sveitarfélaga sérstakt framlag, um fjórar milljónir króna ári, til Upplýsingamiðstöðvar Austurlands. Það framlag mun nú vera flutt til Egilsstaðastofu.