Fellaskóli: Bökuðu 300 bollur fyrir nemendur og kennara: Það var mikil ánægja með þetta - myndir
Bolludagurinn var haldin hátíðlegur í Fellaskóla í dag, en foreldrar og kennarar skólans sameinuðu krafta sína og bökuðu bollur fyrir alla nemendurna í skólanum.Þar sem einn nemandi í 2. bekk í Fellaskóla er með bráðaofnæmi fyrir eggjum var sú ákvörðun tekin að vandlega athuguðu máli að óska eftir því að nemendur kæmu ekki með bollur í skólann. Fljótlega komu þó nýjar hugmyndir til sögunnar og varð niðurstaðan sú að bakaðar voru eggjalausar bollur og öllum nemendum skólans boðið upp á þær.
300 bollur
„Vegna ofnæmis nemandans ekki hægt að fara með egg inn í skólann, þau eru hreinlega lífshættuleg barninu. Foreldrum barnsins fannst leiðinlegt að öllum yrði bannað að koma með bollur og stungu upp á því að baka bollur handa öllum og fá frænkur, frændur, ömmur og afa til að hjálpa til við baksturinn. Í samráði við skólastjórann varð síðan úr, að bollurnar yrðu bakaðar hér þar sem við erum með svo frábæra aðstöðu í skólanum. Svo var það ég, Þorgerður úr mötuneytinu og nokkrir foreldrar sem buðumst til að sjá um baksturinn og bökuðum við um 300 eggjalausar bollur,“ segir Sigríður Ragna Björgvinsdóttir, kennari í Fellaskóla í samtali við Austurfrétt.
Þakklátir foreldrar
Það voru margir sem lögðu bolluveislunni lið og gerðu þetta að veruleika. "Til að svona verkefni gangi upp þarf margt að vinna saman og erum við foreldrar orðlaus hvað margir hvoru tilbúnir að leggja okkur lið, bæði í formi styrkja og vinnu. Okkur langar að þakka öllum sem aðstoðuðu okkur í því að gera þetta að veruleika. Í fyrsta lagi skólastjórnendum fyrir skilning og hjálpsemi, MS fyrir rjómann, Nettó Egilsstöðum fyrir bökunarvörurnar, Nóa Síríus fyrir súkkulaðið, Fellaskóla fyrir sulturnar og Fljótsdalshéraði fyrir aðstöðuna í mötuneytinu. Síðast en ekki síst þökkum við þessum dásamlegu sjálfboðaliðum sem aðstoðuðu okkur að útbúa alla bollurnar,“ segja foreldrar nemandans með ofnæmið á facebook í dag.
Mikil ánægja
Mikil stemmning ríkti í Fellaskóla. „Það var mikil ánægja með þetta og það var mikil stemmning í matsalnum. Í dag hafa síðan fleiri foreldrar haft samband sem segjast vilja hjálpa til á næsta ári ef að þetta verði gert árlega. Er þetta ekki yndislegt,“ segir Sigríður Ragna, kennari að lokum.
Mynd 1: Fjóla Orradóttir sker bollurnar
Mynd 2: Kennarar og foreldar undirbúa baksturinn. Frá vinstri: Fjóla Rún Jónsdóttir, Sigríður Ragna Björgvinsdóttir kennari, Þorgerður Sigurðardóttir úr mötuneytinu og Fjóla Sigurðardóttir.
Mynd 3-6: Nemendur Fellaskóla ánægðir með bolluveisluna.