Höskuldur Þór: Afar sérstakt að þurfa að standa í stappi um hverja krónu við ISAVIA

hoskuldur thor feb15Þingmaður Framsóknarflokksins segir það sérstakt hversu tregir stjórnendur ISAVIA séu að nota hagnað stofnunarinnar til að byggja upp aðra flugvelli en í Keflavík. Stuðningur við millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll virðist vera farinn að berast úr fleiri áttum en áður.

„Mér finnst afar sérstakt eftir síðustu viðskipti við ISAVIA að þurfa að standa í stappi við þessa stofnun, sem er í eigu ríkisins, um hverja einustu krónu," sagði Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins á opnum fundi á Egilsstöðum í síðustu viku.

Ummæli Höskuldar féllu undir umræðu um Egilsstaðaflugvöll og nauðsyn fyrir ferðaþjónustuna að hafa fleiri gáttir inn í landið heldur en eingöngu Keflavíkurflugvöll.

ISAVIA sér um og rekur flugvelli landsins og er á bakvið 20 milljarða framkvæmdir í Keflavík sem Höskuldur segir vera af gríðarlegum hagnaði af millilandaflugi.

Hann segir stofnunina hins vegar til þessa hafa neitað að nota hagnaðinn í aðra flugvelli á grundvelli reglna Evrópusambandsins. Höskuldur hélt því fram að Norðmenn og Finnar gerðu það og við gerð síðustu fjárlaga hefðu 500 milljónir af hagnaðinum verið færðar yfir í innanlandsflugvelli.

„Við höfum engar athugasemdir fengið enn og ég á ekki von á þeim."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði stuðning við flug um Egilsstaðaflugvöll fara vaxandi, hann hefði meðal annars borist af fundi með Eyfirðingum fyrr um daginn.

Hann benti á að flugfélög sem fljúga frá Evrópu gætu náð fram sparnaði með flugi í Egilsstaði þar sem flugið sé styttra en gallinn sé að flugvélaeldsneyti sé dýrara á Egilsstöðum.

Innanlandsflugið var einnig til umræðu en Höskuldur hamraði á mikilvægi þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á núverandi stað. „Það er bara unnið í eina átt, sama hvað er sagt um Rögnunefndina eða annað."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar