Söfnunarreikningur stofnaður eftir brunann í Berufirði: Draumurinn að koma húsinu í fokhelt ástand fyrir haustið
Eins og kunnugt er gerðist sá sorglegi atburður fyrir skemmstu að hið merka hús Steinaborg á Berufjarðarströnd brann til kaldra kola. Nú er Bergur Hrannar Guðmundsson eigandi og ábúandi strax farin að huga að endurreisn hússins, en eftir brunann standa heillegar hleðslur í bakveggjum og grunni sem hægt verður að byggja á.„Maður er bara enn að reyna að átta sig. Ég hef það ekkert sérstaklega gott, en maður tórir. Þetta er leiðinlegt mál allt saman, en maður finnur samt að það eru margir sem vilja hjálpa,“ segir Bergur í samtali við Austurfrétt þegar hann er spurður af því hvernig hann hafi það eftir brunann.
Vill byggja húsið eins og það var
En hvað tekur við núna? „Akkúrat núna fæ ég inn á Krossi sem er sveitabær hérna rétt hjá, en ég ætla að hjálpa þeim sem vinnumaður. Svo hafði ég hugsað mér að byggja upp lítið hús heima en það verður ekki hægt fyrr en í vor þegar frostið er komið úr jörðinni. Það verður byrjunin allavega, svo mun ég fara í áframhaldandi uppbyggingu en ég stefni að því að endurbyggja húsið í sinni upprunalegu mynd.“
Það sem safnast fer alfarið í uppbygginguna
Stofnaður hefur verið sérstakur söfnunarreikningur til stuðnings uppbyggingu hússins á Steinaborg. „Það eru svo margir sem hafa haft samband og langar að hjálpa, og var það aðalástæðan fyrir því að söfnunarreikningurinn var stofnaður. En ef fólk almennt vill leggja eitthvað af mörkum yrði ég ofboðslega glaður og þakklátur. Sá peningur sem kemur inn á þennan reikning fer alfarið í uppbyggingu hússins.“
Hversu mikið fjármagn þarf til verksins? „Það á alveg eftir að koma í ljós. Það er ekki búið að klára meta tjónið þar sem grunnurinn stendur eftir. En uppbyggingin á sjálfstag eftir að taka nokkur ár og fer að sjálfsögðu eftir fjármagninu sem við höfum. Draumurinn er samt að koma húsinu í fokhelt ástand fyrir haustið. Það er svona björtustu vonirnar,“ segir Bergur.
Þakklátur fyrir stuðninginn
En er okkar maður bjartsýnn? „Verður maður ekki að vera það. Jákvæðasta leiðin út úr þessu þrátt fyrir að þetta taki á er að halda bara áfram. Maður er líka bara svo glaður yfir hvað fólk sýnir manni mikinn stuðning. Samhugurinn bæði frá hreppnum og frá fólki að sunnan og hér í nágrenninu er ótrúlegur. Að finna þennan stuðninginn er svo mikils virði og hefur hjálpað mér að halda í vonina,“ segir Bergur að lokum.
Allir sem vilja til leggja málefninu lið geta lagt inn á söfnunarreikningin 1147-05-407228, kt. 090759-7449
Mynd: RUV