Rómantískir á Reyðarfirði: Karlmenn mjög duglegir að kaupa konudagskökuna - Myndir
Konudagurinn er á sunnudaginn og það er í mörg horn að líta hjá Sesam bakaríi og brauðhúsi á Reyðarfirði. Í fjölda ára hafa bakarar þar hannað sína eigin konudagsköku og selt eins og heitar lummur á konudaginn.„Við höfum gert þetta lengi og við leggjum mikla vinnu í kökuna á hverju ári. Við byrjuðum að þessari dásemd fyrir um tveimur vikum því þetta þarf að undirbúa í góðan tíma, en það var ég og annar bakari sem vinnur hérna sem hönnuðum kökuna í sameiningu,“ segir Valur Þórsson, bakari í Sesam Bakaríi.
Algert lostæti
Konudagskakan í ár er lostæti. „Þetta er tveggja botna súkkulaði –orange kaka. Annar botninn er brownie‘s súkkulaðibotn og hinn er hvítur marsípan botn. Í fyllingunni er núggat- og appelsínusúkkulaði frómas með örlitlum keim að kanil. Kakan er svo hjúpuð með konsum appelsínu-suðusúkkulaði og skreytt með sér útbúnu hnetukexi. Hljómar þetta ekki vel?,“ segir bakarinn.
Rómantískir á Reyðarfirði
En hafa karlar verið duglegir að kaupa kökuna í gegnum árin. „Já, mjög duglegir. Þeir eru svo rómantískir karlarnir hérna á Reyðarfirði skal ég segja þér. Þetta er líka ágætis tilbreyting frá blómunum, „ segir Valur að lokum.
Myndir: Valur bakari með kökuna og hin girnilega konudagskaka ársins.