Líneik Anna: Náttúrupassinn verður ekki samþykktur í þeirri mynd sem hann er

xb egs feb15 0004 webÞingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi segir að frumvarp um náttúrupassa verði ekki samþykkt án breytinga. Forsætisráðherra vill skoða aðrar leiðir því rangt virðist að rukka Íslendinga fyrir aðgengi að eigin landi.

„Ég held að náttúrupassinn verði ekki samþykktur í þeirri mynd sem hann er," sagði Líneik Anna Sævarsdóttir á opnum fundi framsóknarmanna á Egilsstöðum í síðustu viku.

Þar gagnrýndi hún passann meðal annars á þeim forsendum að hætta væri á að búin yrðu til „ímynduð verðmæti til einkaaðila fyrir það eitt að fara um land."

Hún sagði samstöðu vera komna um að verja yrði meira fé til öryggis ferðamanna og verndar ferðamannastaða.

„Við þurfum að virða almannaréttinn en líka geta takmarkað hans eins og við gerum í almannavörnum. Hugsanlega þarf að takmarka hann í náttúruverndarlögum en við eigum ekki að tengja gjaldtökuna þar við."

Spurningin sé hvernig afla eigi fjárins. „Best væri ef virðisaukaskattskerfið væri skilvirkara," sagði Líneik og bætti við því að frekari breytingar á því en gerðar voru um áramótin væru í skoðun.

Hún lýsti einnig þeirri skoðun sinni að líklegasta lausnin væri blanda af ólíkum gjaldheimtuleiðum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, minnti á að báðir þingflokkar hefðu afgreitt náttúrupassafrumvarpið með fyrirvörum og iðnaðar- og nýsköpunarmálaráðherra lýst yfir vilja til að skoða breytingartillögur með opnum huga.

Sjálfur lýsti Sigmundur yfir efasemdum í garð náttúrupassans. „Það er prinsippið rukka ekki Íslendinga fyrir að skoða náttúru eigin lands. Það er eitthvað rangt við að það kosti að fara um Þingvelli."

Hann nefndi að mögulega væri að rukka fyrir þjónustu frekar en aðgengi. Til dæmis væri hægt að leggja á bílastæðagjöld eins og tíðkast víða erlendis.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.