Katrín Júlíusdóttir: Ekki skapa væntingar um það sem þú getur ekki staðið við

samfylking 10022015 0011 webVaraformaður Samfylkingarinnar viðurkennir að of miklar væntingar hafi verið skapaðar þegar fyrsta hreina vinstri stjórnin á Íslandi tók við völdum vorið 2009. Þá hafi mönnum mistekist að koma því sem vel hafi verið gert á framfæri en setið undir árásum. Útkoman hafi verið fylgishrun í kosningunum 2013 sem ekki sé enn komið til baka.

Þetta kom fram í máli Katrínar Júlíusdóttur varaformanns og þingmannsins Guðbjartar Hannessonar á opnum fundi á Egilsstöðum í síðustu viku en þingflokkur Samfylkingarinnar í heild nýtti kjördæmaviku til að heimsækja Austurland. Á fundinum voru þau meðal annars spurt hví fylgi flokksins yxi ekki hraðar í könnunum þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnarinnar.

Bæði sögðu skýringarnar margþættar en lögðu áherslu á að kjörtímabilið hefði verið erfitt því staðan hefði verið slæm og mikið átak verið að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. „Fyrrverandi ríkisstjórn stóð í erfiðum málum og varð að gjalda fyrir það," sagði Guðbjartur.

„Við skárum niður og gegnum víða nærri en vissum hvert við vildum fara þegar rofaði til."

Vorum minnihlutastjórn

Katrín sagði flokkinn hafa haft á sinni stefnuskrá metnaðarfull markmið um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og stjórnarskrárinnar sem ekki hefði tekist að efna.

„Lærdómurinn er að skapa ekki væntingar um það sem þú getur ekki staðið við. Við sköpuðum miklar væntingar um mál sem við komum ekki í gegn og það urðu vonbrigði út af væntingum," sagði hún.

„Við vorum í raun minnihlutastjórn síðustu átján mánuðina en sögðum það aldrei hreint út."

Guðbjartur kom einnig inn á samstöðuleysið. „Það hefur lengi loðað við okkur vinstri menn að stofna nýjan flokk ef við erum óánægðir," sagði hann og benti á að nýir flokkar hefði komið fram sem hafi barist fyrir breyttri stjórnarskrá og bættum hag landsbyggðar en fengið takmarkað fylgi.

„Flokknum sem barðist helst fyrir þessum málum er refsað með nýjum framboðum."

Ekki hugsað um efnahagslífið heldur aðeins að slátra okkar áætlunum

Þá taldi Katrín að ríkisstjórnin hefði ekki svarað fyrir sig. „Við vorum ekki nógu dugleg að sýna spilin og hvað við vorum að gera. Við sátum undir því að hafa stöðvað hjól atvinnulífsins og við værum móti öllum virkjunum og nýframkvæmdum.

Búðarhálsvirkjun var sett af stað, tvær nýjar vélar gangsettar á Hellisheiði og bætt við orku í Þingeyjasýslu. Við töluðum aldrei um þetta heldur sátum undir stimplinum."

Henni fannst hins vegar ekki mikið koma til efnahagsstjórnar nýverandi ríkisstjórnar. „Undir lokin hjá okkur var hagvöxturinn 3,8% sem var met í Evrópu en í fyrra varð verðhjöðnun á tveimur ársfjórðungum ... bíddu – eru þetta ekki flokkarnir sem kunna aldeilis að trukka atvinnulífið í gang?"

Menn verða að vita hvaða afleiðingar gjörðir þeirra hafa. Hagvöxturinn er minni því það fyrsta sem menn ákváðu var að fjárfestingaáætlun vondu vinstri stjórnarinnar yrði ekki að veruleika. Þar var ekki hugsað um efnahagslífið heldur bara að slátra því sem við vorum að gera."

Bæði sögðust fagna því að lítill ágreiningur væri innan stjórnarandstöðunnar og samstarfið þar gengi vel. Sérstaklega töldu þau lítinn ágreining við Bjarta framtíð.

„Ef við náum okkar málum fram þá skiptir ekki máli hver fær heiðurinn," sagði Guðbjartur.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.