Loðnuveiðar: Vonum að veður og veiðar verði þokkaleg það sem eftir er
Veiði á loðnu hefur glæðst í vikunni með nýjustu göngunni. Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar vonast til að hægt verði að veiða nógu lengi til að klára kvótann.„Þetta hefur gengið betur eftir að loðnan færði sig upp á grunnið," sagði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í samtali við Austurfrétt í dag.
Krökkt er af loðnuveiðiskipum undan Jökulsárlóni og má þar nefna skip Síldarvinnslunnar Beiti og Birting en einnig eru þar Aðalsteinn Jónsson, Jón Kjartansson, Hoffell nýja og gamla og Vilhelm Thorsteinsson svo dæmi séu nefnd.
„Loðnan er fín en það er spurning hversu langt fram í mars veiðarnar munu standa. Við vonum að veður og veiðar verði þokkaleg það sem eftir er."