Stefna og framtíðarsýn ferðaþjónustunnar í mótun

information centre seydisfjordur 4Á föstudaginn kemur þann 27. febrúar mun Austurbrú standa fyrir stefnumótunarfundi í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samtök ferðaþjónustunnar.

Umfjöllunarefnið er mótun stefnu og framtíðarsýnar í íslenskri ferðaþjónustu. Fundurinn er öllum opinn og á honum gefst einstakt tækifæri fyrir íbúa á Austurlandi til að hafa áhrif á mótun ferðaþjónustunnar.

Tímamót í ferðaþjónustu á Íslandi

Það eru tímamót í ferðaþjónustu á Íslandi. Hún er sú atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu mestum gjaldeyristekjum og árleg fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands hefur verið yfir 20% undanfarin þrjú ár. Vöxtur í greininni skapar mikil tækifæri en einnig áskoranir og við þeim þarf að bregðast af skynsemi.

Mikið hefur verið kallað eftir því að stjórnvöld móti stefnu og framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu og sterkur vilji er meðal hagsmunaaðila að koma að þeirri vinnu. Í fyrrahaust setti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í gang vinnu við mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi með það að markmiði að byggja góðan grunn fyrir íslenska ferðaþjónustu og stuðla að samkeppnishæfni hennar á alþjóðlegum vettvangi til lengri tíma. Stefnt er að því að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í júní.

Staðan kortlögð

Stýrihópur um verkefnið starfar undir formennsku ráðherra en þar eiga einnig sæti ferðamálastjóri og formaður og framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Samhliða er starfandi verkefnahópur, sem heldur utan um verkefnið, og er ætlað að kortleggja stöðuna í íslenskri ferðaþjónustu, huga að að umgjörð ferðaþjónustunnar á Íslandi og taka mið af þekkingu og þróun ferðaþjónustu erlendis, einkum þar sem vel hefur tekist til. Verkefnahópnum er ætlað að gera tillögu að stefnu og framtíðarsýn til lengri tíma og aðgerðaráætlun til skemmri tíma.

Mikilvægasti þátturinn í stefnumótunarvinnunni er aðkoma hagsmunaaðila, m.a. fyrirtækja, starfsmanna í greininni og almennings. Það eru hagsmunir allrar þjóðarinnar að vel takist til og hefur verkefnahópurinn opnað heimasíðuna, www.ferdamalastefna.is en þar gefst öllum kost á að koma á framfæri ábendingum og leiðum sem þeir vilja sjá til að bæta og gera íslenska ferðaþjónustu alþjóðlega samkeppnishæfa.

Fundurinn opinn öllum

Fundurinn á föstudaginn er opinn almenningi. Hann verður frá kl. 15 til 16 í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði (Búðareyri 1) og á honum gefst einstakt tækifæri fyrir íbúa til að taka þátt í mótun stefnu og framtíðarsýnar íslenskrar ferðaþjónustu. „Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Austurlandi og mikilvægt er að sjónarmið svæðisins skili sér inn í þessa vinnu sem verið er að vinna á landsvísu,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar. „Ég vil hvetja alla þá sem hafa skoðanir á málefninu að koma og taka þátt í þessum umræðum.“ Hún segir ennfremur að miklar væntingar séu um víðtækt samstarf við mótun stefnunnar.

Mynd: Visit Seyðisfjörður / ferðamenn

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.