Alcoa: Myndbandið í hæsta máta óvenjulegt og grunsamlegt

alver 05092014 utblasturUpplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls kann ekki skýringar á tilurð myndbands í Kastljósi í kvöld sem sýnir álflúoríð streyma á gólf opinnar áfyllingarstöðvar. Rannsókn er hafin á atvikinu en svo virðist sem verklagsreglum hafi ekki verið fylgt.

„Þessi hurð er ekki opin öllu jafna. Það eru skýrar verklagsreglur sem gilda á þessu svæði og í þeim segir að hurðin eigi að vera lokuð og skýrt kveðið á um umgengni," segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins.

Kastljós RÚV sýndi í kvöld 20 sekúndna langt myndband þar sem álflúoríð sturtast á gólfið. Haft var eftir vitni að lekið hefði hefðu úr sílóinu í nokkrar mínútur og ekki væri í fyrsta sinn sem slíkt atvik ætti sér stað. Rætt var við fulltrúa Umhverfisstofnunar sem sagði að kallað hefði verið eftir skýringum.

Í svari Fjarðaáls við fyrirspurn Austurfréttar segir að líklegast sé um mannleg mistök að ræða. „Verklag við flúoráfyllingu er mjög skýrt þar sem þrífa á umframefni sem fellur á gólfið og loka á dyrum að áfyllingu lokinni. Umgengni eins og sú sem sjá má á myndbandinu er ekki ásættanleg.

Umrætt myndband er í hæsta máta óvenjulegt og í raun grunsamlegt. Myndbandið er á engan hátt lýsandi fyrir starfsemi eða umgengni á þessu svæði og hefur verið hafin rannsókn á tilurð þess."

Starfsmenn eiga að tilkynna yfirmönnum sínum um atvik eins og myndbandið sýnir. Dagmar fullyrðir að ekkert slíkt sé skráð hjá álverinu. Því sé ekki ljóst hvað hafi gerst.

„Nei, við getum ekki skýrt það þar sem við erum ekki með neinar tilkynningar í okkar kerfi um að þarna hafi orðið bilun. Við höfum yfirfarið allan búnað á svæðinu og ekki orðið vör við neina bilun.

Við höfum skerpt á verklagi varðandi umgengni á þessu svæði og sett það í sérstakan fókus hjá okkur. Þá gætum við þess að allir sem vinna á svæðin séu meðvitaðir um reglur sem þarna gilda, fari eftir þeim og tilkynni eftir réttum boðleiðum ef þeir sjá að verklagi er ekki fylgt."

Myndbandið er tekið inn um opnar dyr á sílóhúsi sem er undir birgðasíló álversins. Þangað inn er keyrt litlu ökutæki með tanki sem tekur við efni úr sílóhúsinu. Ekki á að vera meira efni í húsinu en sem svarar því sem ökutækið tekur.

Dagmar segir ekki óvanalegt að smá álflúoríð falli á gólfið við áfyllingu. Samkvæmt verklagsreglum á að sópa það eftir hverja áfyllingu. Rykið er sett í sérmerkt kar sem fer svo í förgun.

Dagmar segir hins vegar að efnið sem lekið hafi á gólfið sé skaðlaust. „Atvikið sem sést á myndbandinu er ekki hættulegt fólki, umhverfi eða dýrum í grennd við álverið. Þá skal því einnig haldið til haga að þarna er um að ræða álflúoríð á föstu formi sem er ekki það sama og vetnisflúoríð í útblæstri en það er vetnisflúoríð sem hefur áhrif á flúormagn í gróðri."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.