Hefur tekið myndir af nokkrum kynslóðum Austfirðinga: Langskemmtilegast að mynda börnin
Þann 11. febrúar síðastliðinn náði ljósmyndarinn Jósef L. Marinósson þeim áfanga að taka fjörtíuþúsundustu passa- og stúdíómyndatökuna sína. Hann hefur starfað sem ljósmyndari á Egilsstöðum frá árinu 1972.Jósef eða Jobbi eins og hann er alltaf kallaður hefur tekið myndir af nokkrum kynslóðum Austfirðinga sem hafa byrjað að koma til hans sem börn með sínum foreldrum en koma í dag með sín eigin börn og barnabörn í myndatökur til hans. Hann hefur tekið um 28.000 passamyndatökur á Austurlandi.
Byrjaði 15 ára
„Ég var fimmtán ára þegar ég tók fyrstu myndirnar. Ég var fenginn til að taka myndir í brúðkaupi systkina minna sem giftu sig þrjú saman. Þennan sama dag áttu foreldrar mínir silfurbrúðkaup auk þess sem það var verið að skíra tvö barnabörn þeirra. Þetta var stór dagur í lífi fjölskyldunnar og mikil ábyrgð var lögð á ungan dreng að mynda þetta allt. Ég myndaði og myndaði og myndaði. Fyrrverandi meistari minn, Sigurður Stefánsson ljósmyndari, tók eftir mér og hvatti mig til að koma til sín að læra ljósmyndun, sem ég og gerði,“ segir Jobbi í samtali við Austurfrétt
Útskrifaðist 1970
Jobbi skellti sér í Iðnskólann á Akureyri í ljósmyndanám og varði síðan fjórum árum sem nemi á ljósmyndastofu Sigurðar á Akureyri sem hét Filman. Jobbi kláraði svo námið og varð sveinn í iðninni árið 1970. „Síðan ég útskrifaðist hef ég nú ekki verið mikið á vettvangi en hef aðallega unnið í stúdíói. Ég flutti svo til Egilsstaða 1972 og stofnaði Héraðsmyndir sem í dag er móðurfélag Myndsmiðjunnar sem ég rek ásamt sonum mínum.“ Og er alltaf nóg að gera? „Já, já, við kvörtum ekki. Við erum einmitt að detta inn í fermingartörnina núna, að búa til fermingarboðskort svo það er í nógu að snúast.“
En hvað er skemmtilegast að mynda? „Mér finnst langskemmtilegast að mynda litlu börnin, þau eru svo æðisleg,“ segir Jobbi að lokum.
Mynd1: Jobbi að störfum í Myndsmiðjunni.
Mynd2: Jobbi árið 1973. Myndin er tekin á Völlum.