Sautján sóttu um verkefnastjóra brothætta byggða
Sautján einstaklingar sóttu um starf verkefnastjóra brothætta byggða sem auglýst var fyrir skemmstu. Von er á því að ráðið verði í starfið á næstu dögum.Verkefnið er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Austurbrúar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um að styrkja byggðir sem eiga undir högg að sækja.
Starfið er til þriggja ára og í því felst að fylgja eftir ákvörðunum verkefnisstjórnar til eflingar byggðar og mannlífs í þeim byggðarlögum sem falla undir verkefnið hverju sinni.
Ætlast er til þess að verkefnisstjórinn hafi frumkvæði að nýjum verkefnum í byggðunum, miðli upplýsingum til íbúa og samstarfsaðila og skipuleggi íbúafundi og samfélagsverkefni í byggðarlögunum.
Í tilkynningu frá Austurbrú kemur fram að sautján einstaklingar hafi sótt um starfið en umsóknarfrestur rann út í lok janúar. Þar segir einnig að ráðningarferlið taki um þrjár vikur sem þýðir að því ætti að fara að ljúka.