Treystum okkur ekki að reka Nettó á Seyðisfirði

samkaup strax seydisfjordur 1Eins og Austurfrétt greindi frá í síðustu viku skora Seyðfirðingar á eigendur Samkaupa að breyta verslun staðarins í Nettó lágvöruverslun. Bæjarbúar eru langþreyttir á að keyra á Egilsstaði til að kaupa í matinn og vilja versla í heimabyggð. Framkvæmdastjórn Samakaupa fékk áskorunina í hendur fyrir helgi og hefur nú svarað Seyðfirðingum.

„Okkur þótti vænt um þessa áskorun. Það er gott að sjá áhuga heimamanna á versluninni og að fólk lætur sér verslunarmál varða í dag. Þetta er mikilvægur þáttur í daglegu lífi fólks,“ segir Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa í samtali við Austurfrétt í morgun.

„Við getum samt ekki litið fram hjá því að Nettó búðir eru lágvörubúðir og þrífast ekki nema á markaðssvæði sem er yfir ákveðinni stærð og Seyðisfjörður nær því ekki . Við treystum okkur ekki að reka Nettó á Seyðisfirði,“ bætir hann við.

Áskorunin að gera betur allstaðar

En hvað með rök Seyðfirðinga fyrir Nettó búð í bænum? „Rökin eru í sjálfu sér ágæt, en við breytum því ekki að markaðssvæðið er bara ekki nægilega stórt. Áskorunin okkar er að gera betur allstaðar þar sem við erum. Í verslunum má alltaf gera betur, en við verðum þá að gera það þannig að við séum í stakk búin að geta staðið við gefin loforð.“

Framkvæmdastjórn Samkaupa svaraði áskoruninni í gær. Hafið þið fengið einhver viðbrögð? „Nei, ekki ennþá. En í áskoruninni til okkar er boðið upp á samræður um verslunarmál á Seyðisfirði og við tökum jákvætt í það. Ég tel það mjög gagnlegt fyrir okkur að rækta sambandið við viðskiptavini hvar sem er, og það að eiga samtal við fólk í einhverskonar rýnihóp eða einhverju slíku er bara gott. Með slíkum samræðum er hægt að draga fram þætti og leita svara við hvernig við getum uppfyllt þarfir neytenda á seyðisfirði, sem og annarstaðar.

Tökum vel í samræður

Í raun stöndum við frammi fyrir sömu áskorun víða. Við rekum fleiri matvörubúðir út á landi í minni bæjarfélögum og eru aðstæður svipaðar þar, þetta er því ekki bara bundið við Seyðisfjörð. En við þökkuðum fyrir áskorunina og þær upplýsingar sem þar koma fram og rök og tökum vel í það að eiga við þau samræður,“ segir Ómar að lokum.

Mynd: visitseydisfjordur.com

Sjá líka: Seyðfirðingar skora á Samkaup að breyta verslun staðarins í lágvöruverðsverslun: Erum þreytt á að keyra í Egilsstaði til að kaupa í matinn

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.