Varasamur hreindýrahópur á Völlum
Vegfarendur sem keyra inn Velli frá Egilsstöðum þurfa að fara með sérstakri gát. Þar heldur sig hreindýrahópur sem sýnt hefur mikla fífldirfsku við að þvera veginn, að sögn vegfaranda sem hafði samband við Austurfrétt.Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir um að ræða tarfa sem nýlega hafi haldið til á túninu við Egilsstaði.
Þeir hafi síðan farið inn með Fljóti og einnig upp fyrir veg því meðal annars hafði sést til þeirra nærri Höfðavatni. Þeir séu eflaust varasamir á flakki sínu fram og til baka.
Skarphéðinn að einnig hafi tarfahópur við veginn yfir Fagradal. Þeir hafi fyrst og fremst haldið til stutt utan við Kálfhól og neðan vegar.
Hjá lögreglunni á Egilsstöðum fengust þær upplýsingar að sést hefði til tveggja hreindýrahópa á Völlum um liðna helgi. Þeir hafi ekki sýnt merki um mikla styggð en geti eflaust verið varasamir „enda með bullandi sjálfsálit og karlhormón upp úr öllu," eins og lögregluþjónn sem Austurfrétt ræddi við orðaði það.
Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson.