Málþing um Þjónustumiðstöð Norðurslóða á Eskifirði 2. júní

eskifjordur kirkja 0004 webFjarðabyggð og Fljótsdalshérað standa fyrir málþingi um Þjónustumiðstöð Norðurslóða þann 2. júní næstkomandi. Málþingið verður haldið í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði.

Á dagskrá málþingsins er umræða um ýmis áleitin málefni sem tengjast Þjónustumiðstöð Norðurslóða, sem er sameiginlegt verkefni Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs. Verkefnið miðar að því að kynna sveitarfélögin tvö sem fýsilegasta valkostinn fyrir þjónustumiðstöð við mögulega olíuleitarstarfsemi á Drekasvæðinu og siglingar um hina nýju Norðurslóðaleið sem mun samkvæmt spám opnast á næstu áratugum.

Áhersla er lögð á mikilvægi Fjarðabyggðarhafna og alþjóðaflugvallarins á Egilsstöðum fyrir starfsemi fyrirhugaðrar Þjónustumiðstöðvar. Því verður gestum málþingsins boðið upp á kynnisferðir um hafnirnar og flugvöllinn, áður en málþingið hefst upp úr hádegi.

Á ýmis málefni verða til umfjöllunar á málþinginu. Til að mynda verður fjallað um hvað Þjónustumiðstöð Norðurslóða stendur fyrir, hvað við getum lært af grönnum okkar í Noregi og Kanada, hvaða áhrif sókn á norðurslóðum hefur á vistkerfi lífríkisins og síðast en ekki síst, hvað sé í húfi í efnahags- og samfélagslegu tilliti hér á Austurlandi.

Að sögn Ástu Kr. Sigurjónsdóttur verkefnastjóra hjá Fjarðabyggð er búist við um 70-100 gestum á málþingið. Skráning á málþingið er öllum opin að kostnaðarlausu og fer fram á heimasíðu Fjarðabyggðar – www.fjardabyggd.is/malthing.




Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.