„Borgaryfirvöld hafa sýnt landsbyggðinni fingurinn“

gunnar jonsson x14 sigadGunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, segir framgöngu borgaryfirvalda í Reykjavík ástæðu þess að bæjarstjórn Fljótdalshéraðs styðji hugmyndir um að skipulag Reykjavíkurflugvallar og annarra alþjóðaflugvalla á Íslandi verði flutt til innanríkisráðherra. Hann segir borgaryfirvöld í Reykjavíkurborg ítrekað hafa „sýnt landsbyggðinni fingurinn“ með gjörðum sínum.

„Það er ekki ásættanlegt að framtíð flugvallarins í Vatnsmýri stjórnist af duttlungum þeirra sem hafa meirihluta í borginni hverju sinni,“ sagði Gunnar í samtali við Austurfrétt í dag og ítrekaði mikilvægi flugvallarins fyrir íbúa á landsbyggðinni.

„Þetta er mikið öryggismál fyrir okkur íbúa landsbyggðarinnar. Við þurfum að ná á Landsspítalann og einnig sækja mikið af opinberri þjónustu til Reykjavíkur.“

Gunnar segir borgaryfirvöld í Reykjavík hafa brotið ákveðið heiðursmannasamkomulag um að láta flugvöllinn vera á meðan verið sé að bíða eftir niðurstöðum frá Rögnunefnd. Ekki sé búið að benda á aðrar lausnir varðandi framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Ennfremur segir Gunnar að borgaryfirvöld hafi haldið flugvellinum í gíslingu og að það hafi komið í veg fyrir eðlilega uppbyggingu á honum. Til að mynda sé flugstöðin gömul og alltof lítil og að óvissa um framtíð flugvallarins komi í veg fyrir samkeppni í innanlandsflugi.

Almennt segist Gunnar þó hlynntur því að sveitarfélögin haldi sínum skipulagsrétti, en að í svona málum krefjist almannaheill þess að „svona hlutir séu í lagi“ og að ríkið grípi inn í. Ekki sé þó fullkomin eining um málið innan bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs. Báðir fulltrúar Héraðslistans, sem mynda meirihluta með Á-listanum og Sjálfstæðisflokki, sátu hjá þegar málið var afgreitt í bæjarstjórn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.