Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs ræddi flugvallamál við þingnefnd

bjorn ingimarsson 0006 webBæjarstjóri Fljótsdalshéraðs kynnti sjónarmið meirihluta bæjarstjórnar sveitarfélagsins á fundi umhverfis- og samgöngunefndar um að skipulag alþjóðaflugvalla ætti heima hjá ríkinu. Eftir að frumvarp þess efnis var afgreitt úr nefndinni í morgun kölluðu nefndarmenn eftir því að sveitarfélagið kæmi til að útskýra sjónarmið sitt.

„Ég gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem réðu för, að málið snérist ekki endilega bara um Reykjavíkurflugvöll," sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, við umræður á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Björn var gestur nefndarinnar að morgni mánudagsins 18. maí. Hann kvaðst hafa verið kvaddur þangað ásamt fulltrúum annarra sveitarfélaga.

Tilefnið var umsögn Fljótsdalshéraðs um lagafrumvarp þingmannsins Höskuldar Þórhallssonar að skipulagsvald á Reykjavíkurflugvelli verði flutt frá Reykjavíkurborg til ríkisins. Í umsögninni er tekið undir þá hugmynd og gengið lengra með því að gefa til kynna að réttast sé að ríkið taki yfir alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum.

Þannig var frumvarpið afgreitt úr nefndinni í morgun við litla hrifningu minnihlutans. Katrín Júlíusdóttir sagði að með því væri verið að taka skipulagsvaldið af Egilsstöðum og Akureyri. Bæði hún og Svandís Svavarsdóttir sögðust hafa óskað eftir að sveitarfélögin fengju að koma fyrir nefndina til að ræða breytt frumvarpið en því hefði verið hafnað.

Á bæjarstjórnarfundinum sagðist Björn hafa nálgast málið við nefndina út frá almanna- og öryggishagsmunum.

„Ég er talsmaður þess að menn skoði lögin, ekki bara um Reykjavíkurflugvöll heldur flugvellina í landinu. Ég held að það sé auðveldara að nálgast málið með þeim hætti út frá almannahag frekar en gera aðför að einum. Það er eðlilegt að þeir séu ekki bara háðir einkahagsmunum viðkomandi sveitarfélaga."

Björn sagði fundinn með nefndinni hafa verið góðan og skoðanaskipti skýr. Fulltrúi Akureyrarbæjar hefði einnig talað á svipuðum nótum en ekki hefðu allir á fundinum verið sammála þeim.

Hann sagði flugið fela í sér ákveðna öryggisventla og því væri ekki óeðlilegt að færa skipulagsþáttinn við slíkar kringumstæður „upp á æðra stig."

Frumvarpið var á dagskrá umhverfis- og skipulagsnefndar 18., 20. og 22. maí með gestum á tveimur fundanna samkvæmt dagskrá nefndarinnar. Fundargerðirnar eru hins vegar ekki enn aðgengilegar á vef Alþingis.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.