Sigrún Blöndal: Ekki ætti að gefa afslátt af skipulagsvaldi sveitarfélaga
Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og formaður Sambands Sveitarfélaga á Austurlandi, hefur áhyggjur af tilhneigingu stjórnvalda til að auka ráðherraræði og þrengja að að skipulagsvaldi sveitarfélaga. Þetta segir hún vegna frumvarps Höskulds Þórhallssonar, sem felur í sér að skipulag alþjóðaflugvallanna í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum heyri undir innanríkisráðherra.Í samtali við Austurfrétt sagði hún að skipulagsvaldið væri mikilvægt atriði fyrir sveitarfélög og að ekki ætti að gefa afslátt af því eftir hentugleikum. „Ég hneigist til þess að horfa á hlutina í stóru samhengi. Ég er mótfallin því að færa ráðamönnum svona mikið óskorað vald og hef því talsverðar áhyggjur af þessu máli,“ sagði Sigrún og nefnir einnig að mögulega verði íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart Reykjavíkurborg, jafnvel upp á fleiri milljarða króna.
Hún segir að áætlanir Reykjavíkurborgar um framtíðarstaðsetningu flugvallarins eigi ekki að koma stjórnvöldum á óvart. „Þetta mál er búið að vera inni á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar í mjög langan tíma. Þetta er ekki neitt nýtt,“ segir Sigrún og bætir við að henni þykir allir hafa fram úr sér í þessu máli, þar sem Rögnunefnd hafi ekki skilað skýrslu sinni um flugvöllinn.
Sigrún er ekki tilbúin að færa ríkinu skipulagsvald yfir flugvellinum á Egilsstöðum. „Ég held að það geti bara komið okkur afskaplega illa. Við viljum geta haft um það að segja hvernig þessi flugvöllur þróast og miðað við áhugann sem ríkið hefur sýnt flugvellinum þá held ég að okkur væri betur borgið að sjá um hann sjálf.“
Að sögn Sigrúnar hefur áhugi ríkisins á uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar verið afar takmarkaður. Heimamenn hafi barist fyrir því að koma málefnum flugvallarins í það horf að frá Egilsstöðum verði mögulegt að halda úti reglulega áætlunarflugi til erlendra áfangastaða, en ríkið hafi ekki sýnt sama áhuga.
Gott dæmi um það sé að ekki er gert ráð fyrir fjármagni til endurbóta á flugvellinum fyrr en árið 2018, þegar 407 milljónir munu renna til nauðsynlegs yfirborðsviðhalds. „Við þurfum sambærilegt eldsneytisverð og að flugvöllurinn sé í standi. Það hefur ekki gengið greiðlega að fá skilning á þessu,“ sagði Sigrún.