Nýstúdent opnar bílaþvottastöð í Fellabæ

KolbeinnHinn 18 ára gamli Kolbeinn Ísak Hilmarsson opnaði á dögunum bílaþvottastöðina Bílaþvottahúsið í Fellabæ. Kolbeinn er nýútskrifaður úr Menntaskólanum á Egilsstöðum, þar sem hann lauk námi á þremur árum.


„Mig langaði bara að prófa einhvern rekstur og mér fannst þetta vanta hérna. Ég hef reynslu af þessu, var að vinna hjá Hertz síðasta sumar og sá fyrir mér að þetta væri mögulegt,“ sagði Kolbeinn þegar Austurfrétt leit við hjá honum í Fellabæ.

Bílaþvottahúsið er tilraunarekstur og verður starfseminni hætt í ágúst, en þá verður húsnæði stöðvarinnar í Fellabæ nýtt undir annað. Ekki verður opið á stöðinni alla daga, heldur bóka viðskiptavinir tíma á fyrirfram ákveðnum opnunardögum. Eingöngu er hægt að bóka tíma á netinu, á heimasíðunni bilathvottahusid.com.

Bílaþvottahúsið býður upp á alhliða þvott fyrir bílinn, bæði að innan og utan. Einnig er boðið upp á sérstaka þjónustu fyrir þá sem skilja bílinn eftir á Egilsstaðaflugvelli. „Ég býð upp á að fólk geti skilið bílinn eftir á flugvellinum og ég sæki hann, þríf hann og skila honum aftur á völlinn,“ segir Kolbeinn, sem vinnur einmitt hjá Flugfélagi Íslands á Egilsstaðaflugvelli meðfram rekstri Bílaþvottahússins.

„Þetta eru 8 eða 9 dagar í mánuði sem ég hef opið og ef það er nóg að gera og ég er einn í þessu þá er vinnudagurinn 12 klukkutímar eða meira, ef það er fullbókað,“ sagði Kolbeinn, sem segir viðtökurnar hafa verið góðar. „Þessa fyrstu daga er búið að vera fínt að gera. Margir sem ég hef talað við hafa viljað sjá meiri þjónustu í þessu hérna.“

Ekki er útilokað að Kolbeinn bæti við fleiri starfsmönnum ef eftirspurnin verður mikil. „Ég er með tvo í takinu sem gætu komið inn og hjálpað mér. Við erum samt allir í vinnu annars staðar svo þetta verður aldrei rekið daglega,“ sagði Kolbeinn, sem hefur nóg að gera þessa dagana.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.