Uppsafnaður rekstrarhalli Heilbrigðisstofnunar Austurlands hátt í 300 milljónir

fjordungssjukrahus neskaupstadHeilbrigðisstofnun Austurlands var rekin með 36 milljón króna halla á síðasta ári og í lok ársins 2014 nam uppsafnaður rekstrarhalli stofnunarinnar 278 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem fyrri ábendingar til Velferðarráðuneytisins og HSA vegna rekstrarvanda heilbrigðisstofnunarinnar eru ítrekaðar.

Skammtímaskuldir stofnunarinnar hafa farið ört hækkandi síðastliðin ár. Þær námu 176 m.kr. við árslok 2012, voru komnar í 283 m.kr. í lok árs 2013 og við árslok 2014 stóðu skammtímaskuldir stofnunarinnar í 312 m.kr.

Ríkisendurskoðun hvetur HSA og Velferðarráðuneytið til að taka á þessari stöðu af festu, enda hafi þetta þau áhrif að stofnunin þurfi að greiða háar fjárhæðir í dráttarvexti.

Velferðarráðuneytinu er bent á að efla eftirlit sitt með fjármálum stofnunarinnar, tryggja að rekstur hennar rúmist innan fjárheimilda og að stofnunin fái nauðsynlegar fjárveitingar til að geta sinnt þeirri þjónustu sem henni er ætlað að veita.

Hallarekstur síðasta árs má að einhverju leyti rekja til óvæntra útgjalda

Ríkisendurskoðun beinir þeim tilmælum til HSA að mikilvægt sé að stofnunin grípi til aðgerða til að jafna uppsafnaðan halla, koma í veg fyrir áframhaldandi hallarekstur og greiða niður skammtímaskuldir sínar.

Í viðbrögðum HSA við ábendingum Ríkisendurskoðunar kemur fram að farið hafi verið í umtalsverðar hagræðingar- og sparnaðaraðgerðir á seinasta ári. Skýringar á hallarekstri seinasta árs megi m.a. rekja til óvæntra útgjalda. Veikindi starfsfólks hafi verið meiri en gert var ráð fyrir, gerður hafi verið nýr kjarasamningur við lækna auk þess sem starfslokauppgjör við tvo lykilstarfsmenn hafi reynst kostnaðarsamt.

Mat bæði Velferðarráðuneytisins og Heilbrigðisstofnunar Austurlands er að stofnunin hafi burði til að halda rekstri ársins 2015 í samræmi við fjárheimildir. Þó sé uppsafnaður rekstrarvandi óleystur.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.